Húsnæðismál, samgöngur og loftslagsmál voru á dagskrá hjá flokkunum fjórum sem funda nú um myndum meirihluta í Reykjavík, að því er fram kom í fréttum RÚV. Samfylkingin, Framsóknarflokkur, Píratar og Viðreisn freista þess nú að mynda nýjan meirihluta í borginni og hafa fundað í fjóra daga í Elliðaárdal.
„Ég held kannski að fólk hafi fundið það í kosningabaráttunni að flokkarnir töluðu ekki alveg einum rómi í þessu og viðræðurnar ganga út á að finna sameiginlega fleti þannig að við náum þeim krafti sem þarf í þessa uppbyggingu á næstu árum,“ sagði Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í samtali við fréttamann RÚV.
Dagur sagði að öll helstu byggingarsvæði í borginni hefðu verið rædd, Reykjavíkurflugvöllur hefði enn ekki komist á dagskrá en hann vildi ekkert gefa upp um í hvaða málum flokkarnir væru ósammála. Viðræðurnar væru hugsaðar til að útkljá ágreiningsefni, þær gangi vel og séu í góðum anda.
Fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar í Reykjavík er á dagskrá þannn 7. júní næstkomandi og sagði Dagur að sér fyndist „góður bragur “ að því að ljúka meirihlutaviðræðum fyrir þann tíma.
Samanlagt eru flokkarnir fjórir með þrettán borgarfulltrúa.