Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, Stefán Svavarsson, löggiltur endurskoðandi, og Katrín D. Ólafsdóttir, sérfræðingur í mannauðsmálum og framkvæmdastjóri Hagvangs, hafa verið skipuð í ráðgjafarnefnd vegna kosningar ríkisendurskoðanda. Þorgeir er jafnframt formaður nefndarinnar. Undirnefnd vegna kosningar ríkisendurskoðanda var veitt umboð til ganga frá skipun nefndarinnar í síðasta mánuði.
Forsætisnefnd Alþingis var greint frá skipan nefndarinnar í morgun. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans mun nefndin hefja störf í þessari viku og munu þrír nefndarmenn forsætisnefndar starfa náið með ráðgjafarnefndinni. Það eru Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, Oddný G. Harðardóttir, 1. varaforseti og Líneik Anna Sævarsdóttir, 2. varaforseti. Vinna nefndarinnar mun fara fram í apríl og áætlað er að nýr ríkisendurskoðandi verði kosinn í maí.
Staðgengill ríkisendurskoðanda er starfandi ríkisendurskoðandi
Í síðustu viku féllst Ríkisendurskoðun á beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins um úttekt á útboði og sölu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka sem fram fór 22. Mars. Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar á föstudag segir að stefnt sé að því að niðurstaða úttektarinnar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis í júní.
Guðmundur B. Helgason stjórnmálafræðingur er starfandi ríkisendurskoðandi eftir að Skúli Eggert Þórðarson, sem skipaður var ríkisendurskoðandi 2018, tók við embætti ráðuneytisstjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu 1. febrúar. Í kjölfarið fól forseti Alþingis Guðmundi að gegna starfi ríkisendurskoðanda þar til kosning nýs ríkisendurskoðanda hefur farið fram á Alþingi. Guðmundur Björgvin er staðgengill ríkisendurskoðanda en hann er sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun og forstöðumaður skrifstofu embættisins á Akureyri. Hann var áður ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneyti og mannauðsstjóri hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Jórdaníu.
Sama dag og Skúli Eggert hóf störf hjá ráðuneytinu óskaði umboðsmaður Alþingis eftir skýringum á lagalegum grundvelli fyrir skipan eða tímabundinni setningu nýs ráðuneytisstjóra. Í bréfi sem menningar- og viðskiptaráðuneytið sendi umboðsmanni 10. febrúar kemur fram að Lilja hafi óskað eftir því við forseta Alþingis að Skúli Eggert yrði fluttur úr embætti ríkisendurskoðunar til forseta Alþingis sem fallist var á með bréfi 27. janúar með vísan til 36. greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem segir meðal annars að stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, geti flutt embættismann í annað starf án auglýsingar, enda liggi fyrir ósk eða samþykki embættismannsins sjálfs.
Eftir að athugun umboðsmanns hófst barst honum tilkynning frá Alþingi þar sem aðkomu þingsins að ákvörðuninni að skipa Skúla Eggert ráðuneytisstjóra var lýst, auk þess sem fram kom afstaða til þeirra lagasjónarmiða sem byggt var á við flutninginn. Í kjölfarið sendi umboðsmaður Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, bréf þar sem fram kom að athugun hans á skipan þáverandi ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis sé lokið.
Ríkisendurskoðanda heimilt að rukka ríkið um úttektina
Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar um úttekt á útboði og sölu á hlut í Íslandsbanka segir að áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar liggi ekki fyrir en slík áætlun verði endurskoðuð eftir því sem úttektinni vindur fram. „Í því sambandi er ítrekað að [...] ríkisendurskoðandi [er] sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögunum,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar.
Fyrir liggur því að starfandi ríkisendurskoðandi muni bera þungann af úttekt embættisins á úttekt um söluna á Íslandsbanka.
Í tilkynningunni vísar Ríkisendurskoðun einnig í aðra málsgrein áttundu greinar laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga þar sem kveðið er á um gjaldtöku. Þar segir að þegar „sérstaklega stendur á og nauðsynlegt er að að ríkisendurskoðandi skoði eða geri úttekt á meðferð ríkisfjár í tilteknu máli eða á tilteknu sviði er honum heimilt að taka gjald fyrir.“ Ríkisendurskoðanda er því heimilt að taka sérstakt gjald fyrir að gera úttekt á útboði og sölu á hlut í Íslandsbanka.