Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um eitt og hálft prósent í dag í kjölfar frétta af nýju smitandi afbrigði af kórónuveirunni. Mesta lækkunin á aðalmarkaði var hjá Icelandair, en virði bréfa í Play minnkaði einnig töluvert á First North markaðnum.
Lækkun á heimsvísu
Líkt og greint er frá í frétt Financial Times hefur verð á hlutabréfum lækkað á heimsvísu í dag, en S&P 500 hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 1,4 prósent í fyrstu viðskiptum. Samkvæmt miðlinum má rekja lækkunina til frétta af nýju afbrigði kórónuveirunnar sem greindist fyrst í Botswana og veldur mikilli aukningu í Suður-Afríku.
Lækkunin var enn meiri á evrópskum hlutabréfamörkuðum, en hlutabréfavísitalan Stoxx 600 hafði lækkað um 2,8 prósent yfir daginn um síðdegið. Franska CAC 40 vísitalan lækkaði svo um 3,9 prósent, á meðan þýska Dax vísitalan lækkaði um 3,1 prósent.
Lækkunin var einstaklega mikil á meðal félaga tengd fluggeiranum, en hún nam 10 prósentum hjá þýska flugfélaginu Lufthansa og flugvélaframleiðandanum Airbus. Aftur á móti hækkaði hlutabréf lyfjafyrirtækja töluvert, en virði bóluefnaframleiðandans Moderna er nú 16 prósentum hærra en það var í gær. Sömuleiðis hækkaði hlutabréfaverð Pfizer um 6 prósent.
Svipuð lækkun hjá Play og Icelandair
Hérlendis var lækkunin líka mest á meðal flugfélaga, en skömmu eftir að fréttirnar bárust fór hlutabréfaverð Icelandair niður um 11 prósent. Þegar markaðir lokuðu síðdegis í dag hafði verðið hins vegar hækkað nokkuð aftur, en heildarlækkun á virði bréfanna yfir daginn nam 4,73 prósentum. Alls nam heildarvirði viðskiptanna með bréf í félaginu 419 milljónum króna.
Lækkunin var svipuð hjá Play á First North markaðnum, en hlutabréf í flugfélaginu eru nú 4,42 prósentum ódýrari en þau voru við lokun markaða í gær. Heildarvirði viðskipta með bréfum félagsins nam 48 milljónum króna.