Útreikningar Þjóðskrár á fasteignamati atvinnuhúsnæðis fyrir árið 2015 náðu einungis til 56 prósenta atvinnuhúsnæðis. Það er verslunar-, skrifstofu-, hótel- og iðnaðarhúsnæði. Þar nemur hækkunin átján prósentum á milli ára. Restin, 44 prósent atvinnuhúsnæðis, svo sem spítalar, skólar, heimavist, leikskólar og íþróttahús, var tekin út fyrir sviga. Þar nemur hækkun fasteignamats á milli ára einungis fjórum prósentum. Þessi flokkun atvinnuhúsnæðis hefur löngum verið umdeilanleg.
Hækkandi fasteignamat hefur víðtæk áhrif, en lögum samkvæmt er því er ætlað að endurspegla gangverð fasteigna og markaðsverðmæti þeirra. Fasteignaskattur, fasteignagjöld, reiknast af fasteignamati húss og lóðar, og þannig hækka opinber gjöld til sveitarfélaganna samhliða hækkandi fasteignamati. Til að mynda er álagningarprósenta fasteignaskatts hjá Reykjavíkurborg 0,2 prósent á íbúðarhúsnæði, 1,65 prósent á atvinnuhúsnæði og 1,32 prósent á aðrar eignir.
Nýja fasteignamatið mun hækka tekjur sveitarfélaganna af atvinnuhúsnæði um rúmlega milljarð króna árlega. Ljóst er að eigendur atvinnuhúsnæðis, til að mynda fasteignafélögin, munu leita allra leiða til að velta slíkri hækkun út í verðlagið við gerð og endurnýjun leigusamninga, með tilheyrandi og óhjákvæmilegri hækkun leiguverðs. Fyrirtæki sem eiga sitt húsnæði fá strax hækkun á sinn húsnæðiskostnað. Hærri húsnæðiskostnaður eða hækkun leiguverðs leiðir svo til hærri framleiðslukostnaðar fyrir fyrirtæki, sem neyðast þá til að hækka verð á vöru og þjónustu með ófyrirséðum verðbólguáhrifum.
Lestu ítarlega umfjöllun um hækkað fasteignamat atvinnuhúsnæðis og áhrif þess í nýjustu útgáfu Kjarnans hér.