Gert er ráð fyrir að nýtt hafrannsóknaskip sem nú stendur til að smíða muni brenna á bilinu 900 þúsund til milljón lítrum af olíu á ári hverju. Þetta kemur fram í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis við fyrirspurn Kjarnans um skipið og smíði þess. Útboðsferli á smíði skipsins var kynnt á vef stjórnarráðsins í síðasta mánuði en þar segir meðal annars að við hönnun skipsins hafi verið horft til ýmissa leiða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.
Ein af aðgerðum stjórnvalda til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 eru orkuskipti í skipum á vegum ríkisins. Aðgerðin, sem finna má í aðgerðaáætlun stjórnvalda frá því í júní í fyrra, felur í sér að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis í skipum á vegum ríkisins. Minnst er á smíði nýs hafrannsóknaskips í kaflanum þar sem þessi aðgerð er tekin fyrir og þar tekið fram að kannaðir hafi verið hvaða orkugjafar aðrir en jarðefnaeldsneyti komi til greina fyrir skipið.
„Auk þess er gert ráð fyrir að skipið verði búið vélum sem geta auk jarðefnaeldsneytis og lífdísils mögulega nýtt metanól sem orkugjafa. Það ræðst þó af vinnu við þróun fjórgengisvéla af þeirri stærð sem skipið þarf hvort unnt verður að búa það slíkri vél,“ segir í kaflanum um þessa tilteknu aðgerð.
Sú aðgerð að ráðast í orkuskipti skipa á vegum ríkisins tengist einnig aðgerðum í ríkisrekstri sem settar eru fram í aðgerðaáætluninni. Meðal aðgerða í ríkisrekstri er aðgerð sem felur í sér að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða við öll innkaup ríkisins, aðgerð sem felur í sér að loftstlagsáhrif lagafrumvarpa verði metin og að stjórnarráðið verði að fyrirmynd í loftslagsmálum með sérstakri loftslagsstefnu, svo fátt eitt sé nefnt.
Rafmagn úr landi verði sex til átta prósent orkunotkunar
Kjarninn sendi fyrirspurn á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið til þess að spyrja um nýsmíðina og hvernig útbúnaður skipsins rímar við þær aðgerðir sem settar eru fram í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Ráðuneytið er í forsvari fyrir þá aðgerð sem snýr að orkuskiptum skipa ríkisins, Hafrannsóknastofnun heyrir undir ráðuneytið auk þess sem það fer með orkumál.
„Rétt er að taka fram að skipið er eins umhverfisvænt og tæknilega er mögulegt í dag,“ eru upphafsorð svarsins, enda geti rannsóknaskip sem þarf að hafa allt að 30 daga útivist á sjó ekki einvörðungu gengið fyrir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti. Skipið muni engu að síður standa mjög framarlega hvað umhverfismál varðar, segir í svarinu, „en flest ef ekki öll sambærileg hafrannsóknaskip ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.“
Meðal þeirra leiða sem farnar verða til að spara orku er að nota LED tækni til lýsingar um borð. Spilbúnaður skipsins verður rafdrifinn og afgangsorka frá kælivatni aðalvéla skipsins notuð til upphitunar. Í höfn verður skipið tengt við rafmagn í landi og gert er ráð fyrir að settir verði upp varmaskiptar í heimahöfn skipsins þannig að það verði hitað með vatni frá hitaveitu. Talið er að orkunotkun skipsins í höfn muni nema um 300 til 400 þúsund kílóvattstundum á ári sem er um sex til átta prósent af heildar orkunotkun skipsins.
Áætla að skipið endist í 30 ár
Heildarorkunotkun skipsins á ári er hins vegar talin verða um 4,5 milljónir kílóvattstunda. Skipið mun því þurfa að brenna um 900 þúsund til milljón lítrum af olíu á ári, en um 80 prósent af orkunotkun skipsins fer í að drífa það áfram. Hin 20 prósentin af orkunotkuninni fara í ýmsa notkun innan skipsins sem áður hefur verið nefnd; spilbúnað, upphitun, lýsingu og annað slíkt.
Hvernig slíkt samræmist áherslum ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum svarar ráðuneytið: „Eins og fram kemur í svörum hér að framan var leitað allra leiða til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis við hönnun skipsins. Áfram verður unnið með möguleikana á því að skipið verði drifið áfram á lífdísil eða metanóli, verði hentugar vélar komnar í framleiðslu á smíðatímanum. Því hefur verið leitað allra mögulegra leiða við hönnunina til að skipið verði sem vistvænast, í samræmi við áherslur stjórnvalda í umhverfismálum.“
Í svari ráðuneytisins kemur einnig fram að lang stærstur hluti þess eldsneytis sem skip Hafrannsóknastofnunar nota sé jarðefnaeldsneyti. Svar við spurningunni um hversu hátt hlutfallið sé liggur ekki ljóst fyrir en skip Hafrannsóknastofnunar nota um 1,6 milljónir lítra af jarðefnaeldsneyti á ári. Þegar skipin liggja við landfestar eru þau alltaf tengd við rafmagn sem ráðuneytið segir að spari umtalsverða notkun á óvistvænum orkugjöfum.
Áætlaður endingartími nýja skipsins er allt að 30 ár, svo ljóst er að skipafloti Hafrannsóknastofnunar mun halda áfram að brenna umtalsverðu magni af jarðefnaeldsneyti, nema ef ske kynni að vélum hins nýja skips verði skipt út.
Hafa haft vakandi auga fyrir metanólvélum
Kjarninn spurði auk þess um hvort mat lægi fyrir um kostnað þess að smíða skip sem ekki gengi fyrir jarðefnaeldsneyti, skip sem gengi til að mynda fyrir metanóli. Samkvæmt svari ráðuneytisins liggur slíkt mat ekki fyrir af þeirri einföldu ástæðu að það sé ekki tæknilega framkvæmanlegt að smíða rannsóknaskip sem þarf að vera úti á sjó í 30 daga í senn sem gengur alfarið fyrir öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti, líkt og áður hefur komið fram.
„Þar sem metanól er sérstaklega nefnt í fyrirspurninni þá er rétt að taka það fram að Hafrannsóknastofnun og smíðanefnd skipsins hafa verið sérstaklega vakandi fyrir þeim möguleika og vaktað reglulega áform helstu vélaframleiðenda varðandi smíði á vélum til brennslu metanóls. Ennþá hefur enginn af helstu vélaframleiðendum getað gefið ákveðin svör um hvort eða hvenær fjórgengis metanól vél verði tilbúin til framleiðslu,“ segir í svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.