Fjármálaráðherrar evruríkja búast við að fá í hendurnar nýtt samningstilboð á morgun, þriðjudag, frá Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, og stjórn hans. Talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sagði í dag að stjórnvöld í Þýskalandi líti svo á að Grikkland eigi næsta leik. Þar sem gríska þjóðin hafi hafnað síðasta samningstilboði í þjóðaratkvæðagreiðslu þá þurfi Grikkir að leggja fram nýtt tilboð. Merkel fundar með Francois Hollande, forseta Frakklands, í París í kvöld. Á sama tíma verður Euclid Tsaklotos, sem leitt hefur viðræður Grikkja gagnvart kröfuhöfum, formlega skipaður í embætti fjármálaráðherra landsins. Hann tekur við af Yanis Varoufakis sem hætti í dag.
Í kjölfar niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi í gær, þar sem Grikkir höfnuðu samkomulagi við kröfuhafa sem fól í sér mikinn niðurskurð og aðhald í ríkisrekstri gegn frekari fyrirgreiðslum og neyðaraðstoð, hafa þrír stjórnarandstöðuflokkar lýst yfir stuðningi við Syriza, stjórnarflokk Tsipras forsætisráðherra, í viðræðunum við kröfuhafa. Grikkir krefjast frekari skuldaniðurfellinga en þeim hefur verið boðið hingað til og benda máli sínu til stuðnings meðal annars á nýlega greiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), þar sem talað er fyrir nauðsyn þess að grynnka á skuldum gríska ríkisins. AGS sendi frá sér yfirlýsingu og dag og sagðist sjóðurinn fylgjast grannt með stöðu mála og vera tilbúin að aðstoða Grikki, kalli þeir eftir því.
Stærri gjalddaga 20. júlí - Bankar áfram lokaðir
Þýskaland er stærsti lánadrottinn gríska ríkisins og ræður afstaða þeirra miklu um næstu skref. Efnahagsráðgjafi Þýskalands og næstráðandi í ríkisstjórn Merel, Sigmar Gabriel, sagði í dag að Grikkir standi frammi fyrir greiðsluþroti og ef þeir vilji halda áfram evrustamstarfi þurfi þeir að gangast við kröfum kröfuhafa. Næsti stóri gjalddagi á neyðarlánum til Grikklands er 20. júlí næstkomandi, þegar 3,5 milljarða evra lán frá Seðlabanka Evrópu fellur á gjalddaga. Ef Grikkir greiða ekki af láninu hefur það mun viðameiri afleiðingar heldur en þegar gríska ríkið greiddi ekki af 1,6 milljarða evra láni frá AGS um síðustu mánaðarmót. Afleiðingarnar yrðu meðal annars þær að önnur lán falla á gjalddaga vegna brostinna skilmála.
Staða gríska ríkisins er grafalvarleg. Líflínur grískra banka til Seðlabanka Evrópu hafa verið frosnar frá því boðað var til þjóðaratkvæðagreiðslu. Stjórnvöld í Grikklandi stefnu að því að opna bankastofnanir í landinu aftur á morgun en af því verður ekki. Bankarnir verða lokaðir á morgun og miðvikudag, hið minnsta. Hámarksútgreiðsla úr hraðbönkum verður áfram 60 evrur á dag.