Fyrsta myndin úr nýju veðurtungli evrópsku geimferðastofnunarinnar, ESA, og Veðurtunglastofnunar Evrópu, EUMETSAT, hefur borist til jarðar og hún sýnir sumarskrúða Evrópu og Afríku í allri sinni dýrð. Veðurtunglið er nýjasta viðbótin í veðurtunglanet EUMETSAT sem Veðurstofa Íslands hefur aðgang að.
Myndin var birt á vef ESA í gær, þriðjudag, ásamt tilkynningu um að MSG-4 gervitunglið væri nú virkt og komið á sporbraut um jörðu eftir að hafa verið skotið til himins frá Frönsku Gvæjana í Suður-Ameríku.
Þegar MSG-4 er búið að virkja sig að fullu verður tunglið endurnefnt Meteosat-11 og verður í viðbragðsstöðu bili einhver af evrópsku veðurtunglunum sem nú sjá veðurfræðingum fyrir gögnum. Geimferðarstofnunin er ávalt viðbúin því að veðurtunglin bili og hefur því eitt í dvala til þess að grípa inni, bjáti eitthvað á.
Eins og stendur fylgjast fjögur veðurtungl á vegum EUMETSAT með jörðinni og senda veðurfræðingum myndir af Evrópu, Afríku og Indlands- og Atlantshafi á 15 mínútna fresti. Myndirnar nota veðurfræðingarnir svo til að spá fyrir um veðrið. Hér að neðan má sjá veðrakerfin þróast yfir Evrópu í apríl síðastliðnum.
https://www.youtube.com/watch?v=K5qTgJ-IldM
Á vef Mashable er útskýrt hvernig þessi veðurtungl virka. Tunglin halda stöðu sinni yfir fyrirfram ákveðnum punkti á jörðinni og gera veðurfræðingum kleift að fylgjast með veðrakerfum í lofthjúpi jarðar þróast.
Veðurstofa Íslands varð meðlimur í EUMETSAT í janúar 2014 eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, skrifaði undir samkomulag þess efnis. Íslendingar leggja til um 0,10 prósent fjármagnsins til reksturs veðurtunglanna, eða næst minnst. Aðeins er framlag Eista minna. Þjóðverjar, Bretar og Frakkar leggja til mest eða samanlagt helming fjármagnsins.
Jörðin séð úr víðlinsu MSG-4 á dögunum. Sjáið hvernig Ísland er sveipað skýjum.