Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að allt verði gert til að tryggja frið í Sýrlandi og koma í veg fyrir meiri hörmungar í landinu. Bandaríkin séu til í að vinna saman að friði með Rússum, og einnig Írönum. Þetta kom fram í máli Obama þegar hann ávarpaði sjötugasta allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag.
Hann ítrekaði þó fyrri afstöðu um nauðsyn þess að starfa með öðrum leiðtoga í Sýrlandi en Bashar al-Assad forseta. Honum væri ekki treystandi.
Obama hefur ekki áður talað með svo afgerandi hætti um að Bandaríkin séu samstarfsfús með Rússum þegar kemur að því að stilla til friðar í Sýrlandi. Efnahagsþvinganir landsins gagnvart Rússum hafa gert samskipti ríkjanna stirð, en svo virðist sem samstarfsgrundvöllur sé mögulegur þrátt fyrir allt.
Um 250 þúsund manns hafa látið lífið í borgarstyröldinni í Sýrlandi og yfir 800 þúsund slasast. Þá er um helmingur íbúa landsins, sem voru um 22 milljónir í lok árs 2013, á flótta.
Watch @POTUS speak at the @UN General Assembly at 10am ET → http://t.co/QrXzBhdOjp #UNGA pic.twitter.com/9vdmSOeYe6
— The White House (@WhiteHouse) September 28, 2015
Obama og Vladímir Pútín, forseti Rússlands, munu eiga fund um málefni Sýrlands síðar í dag, og á morgun, en búist er við því að Pútín muni freista þess að ná sáttum við Obama svo að ríkin tvö geti í sameiningu barist gegn Íslamska ríkinu og hryðjaverkasamtökum í Sýrlandi, og einnig í nágrannaríkjum.