Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur mildað 46 fangelsisdóma yfir fólki sem dæmt var fyrir fíkniefnabrot sem voru ofbeldislaus. Í yfirlýsingu sem forsetinn gaf í dag var ákvörðunin tekin í takti við loforð hans um að endurskoða refsikerfi Bandaríkjanna. Frá þessu er greint á vef Reuters.
Fjöldi fanga í Bandaríkjunum er meiri en nokkurstaðar í heiminum en samkvæmt tölfræðideild dómstóla vestanhafs voru 0,94 prósent fullorðinna með bandarískt ríkisfang í fangelsi í lok árs 2011 eða 2.266.800 manns. Samtals voru þá um 2,9 prósent allra fullorðinna á einhverjum stað í refsikerfinu.
Fjöldi fólks í fangelsum vestahafs jókst hratt á áttunda áratug síðustu aldar og fór úr um 200 manns á hverja 100.000 íbúa árið 1970 í um 1000 á hverja 100.000 íbúa árið 2007.
Obama hefur nú mildað refsingar 89 fanga síðan í apríl í fyrra eða þegar Hvíta húsið setti af stað átak þar sem fangar gátu sótt um mildun refsingar. Flestir fangelsisdómarnir sem mildaðir voru í dag, mánudag, voru refsingar fyrir krakkneyslu. Dómar fyrir vörslu krakks í Bandaríkjunum voru eitt sinn jafn þungir og ef fólk hefði í fórum sínum 100 sinnum meira magn af hreinu kókaíni í duftformi.
„Refsingar þessa fólks voru ekki í samræmi við brot þeirra,“ sagði Obama í yfirlýsingu sinni. Föngunum 46 verður sleppt 10. nóvember næstkomandi. Forsetinn mun fyrirskipa fleiri refsimildanir og náðanir áður en kjörtímabil hans er úti í janúar 2017, að sögn talsmanns Hvíta hússins.