Vegna hamfarahlýnunar var 160 sinnum líklegra að hitabylgjur gengju yfir Bretlandseyjar síðasta sumar líkt og raunin varð. Hvert hitametið á fætur öðru var slegið, hættuástand skapaðist vegna hita og samgöngur fóru úr skorðum.
Breska veðurstofan staðfesti í dag að nýliðið ár sé það hlýjasta í landinu frá því að mælingar hófust. Meðalhiti ársins er í fyrsta sinn í mælingasögunni yfir 10 gráðum. Sérfræðingar veðurstofunnar hafa reiknað út að gera megi ráð fyrir hitabylgjum eins og þeim sem gengu yfir landið í sumar á þriggja til fjögurra ára fresti. Án loftslagsbreytinga af mannavöldum hefði mátt gera ráð fyrir slíkum hitabylgjum einu sinni á fimm alda tímabili. Það er að segja: Einu sinni á 500 ára tímabili.
Meðalhiti ársins 2022 í Bretlandi reyndist 10,03 gráður. Þar með er fyrra met frá árinu 2014, 9,88 gráður, slegið. Síðasta ár var því 0,89 gráðum heitara en síðustu þrír áratugir að meðaltali, segir í gögnum bresku veðurstofunnar. Þetta er staðreynd þrátt fyrir að desember hafi verið óvenju kaldur og því dregið meðalhita ársins töluvert niður.
Mörgum var illa brugðið er hiti fór í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust yfir 40 gráður á Bretlandseyjum. Áður hafði metið verið 38,7 gráður.
Talið er að þúsundir ótímabærra dauðsfalla megi rekja til hitabylgjanna.