Samtök sem sérhæfa sig í að fylgjast með breytingum á veðurfari og kortleggja frávik (World Weather Attribution, WWA) telja að gríðarleg rigningarveður séu algengari í sunnanveðri Afríku en áður og í nýrri skýrslu þeirra kemur fram að loftslagsbreytingar hafi aukið á eyðileggingu vegna ofsaveðra sem geisað hafa á svæðinu á fyrstu mánuðum ársins.
Veðrið í nokkrum löndum sunnan miðbaugs hefur verið mjög óvenjulegt það sem af er ári. Þrír fellibyljir og tveir hitabeltisstormar gengu yfir á aðeins sex vikna tímabili. Þetta hafði mikil og neikvæð áhrif á líf yfir einnar milljónar manna, m.a. vegna mikillar úrkomu og flóða. Að minnsta kosti 230 manns létust vegna veðurofsans, segir í skýrslu WWA.
Vísindamenn samtakanna segja að vegna mjög takmarkaðra veðurgagna sé þó ekki hægt að fullyrða að loftslagsbreytingar séu að auka tíðni slíkra ofsaveðra.
Fyrsti fellibylurinn sem fékk nafnið Ana skall á í janúar og olli umfangsmikilli eyðileggingu í Madagaskar, Mósambík og Malaví. Tugir létu lífið og þúsundir urðu innlyksa þar sem vegir og brýr eyðilögðust í flóðum.
Vísindamenn á vegum WWA báru saman gögn um veðrið í ár og veðurfar síðustu ára en rákust fljótt á veggi þar sem samfelldar úrkomumælingar hafa ekki verið gerðar í þessum heimshluta. Í frétt BBC um málið segja vísindamennirnir að aðeins fjórar af 23 veðurstöðvum á þeim svæðum í Mósambík sem urðu hvað verst úti hafa safnað gögnum í fjóra áratugi og engin veðurstöð á Madagaskar eða í Malaví.
Meiri rigning og meiri skemmdir
Hins vegar er það niðurstaðan að loftslagsbreytingar hafi þegar orðið til þess að illviðrin eru kraftmeiri og verri en áður þótt ekki sé hægt að staðfesta að tíðni þeirra sé að aukast.
„Úrkoma sem tengist svona stormum er orðin líklegri og meiri en áður,“ hefur BBC eftir Friederike Otto, einum vísindamannanna. „Það sem við getum svo sagt með vissu er að skemmdir af völdum svona óveðra eru meiri.“
Otto segir að enn einu sinni komi berlega í ljós að loftslagsbreytingar af mannavöldum muni hafa mest áhrif á líf fólk sem beri minnsta ábyrgð á þeim. „Efnuð ríki ættu að standa við skuldbindingar sína og auka fjárframlög til fyrirbyggjandi aðgerða og til greiðslu bóta til handa fórnarlömbum ofsaveðra af völdum loftslagsbreytinga.“
Vísindamenn hafa margir bent á að nauðsynlegt sé að efla rannsóknir á veðri í Afríku. Aðeins þannig væri hægt að meta fyllilega þau fyrirsjáanlegu áhrif sem þar eiga eftir að verða vegna loftslagsbreytinganna. „Það þarf að undirbúa útsett fólk og innviði samfélaganna svo betur sé hægt að takast á við vána,“ hefur BBC eftir
Izidine Pinto, prófessor við Háskólann í Höfðaborg í Suður-Afríku.