Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands er að jafnaði með 2.127 þúsund krónur í mánaðarlaun, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra fær greiddar 1,6 milljónir króna í mánaðarlaun að meðaltali. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu vegna tekjublaðs Frjálsrar verslunar, sem unnið er upp úr álagningatölum ríkisskattstjóra.
Samkvæmt úttekt blaðsins er Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra með 1.175 þúsund krónur í mánaðarlaun að jafnaði, og Gunnar Nelson bardagakappi er tekjuhæsti íþróttamaður landsins með tæpar 1,8 milljónir króna á mánuði á síðasta ári. Þess ber að geta að íslenskir atvinnumenn í knattspyrnu og handbolta erlendis eru ekki skattlagðir á Íslandi.
Launaskrið meðal efstu forstjóra að stöðvast?
Tvö hundruð efstu forstjórarnir í almennum fyrirtækjum á Íslandi eru með 2,6 milljónir króna í mánaðarlaun að meðaltal. Laun næstráðenda, sem hækkuðu mikið í launum á síðasta ári og fóru úr 1,6 milljónum króna á mánuði í 2,2 milljónir, haldast hins vegar óbreytt. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu vegna tekjublaðs Frjálsrar verslunar.
Þar kemur fram að í flokki forstjóra í almennum fyrirtækjum hafi verið 75 konur í 450 manna úrtaki blaðsins. Launatekjur kvennanna voru að jafnaði 1.445 þúsund krónur á mánuði á meðan meðaltal úrtaksins var 1.794 þúsund krónur á mánuði.
Starfsmenn fjármálafyrirtækja hækka mest í launum
Samkvæmt samantekt Frjálsrar verslunar virðast sjómenn hafa lækkað í launatekjum á milli ára, en 200 tekjuhæstu sjómennirnir hafa lækkað í launum um 400 þúsund krónur á mánuði á milli ára.
Þá hyggst blaðið birta í fyrsta sinn sérstakan 60 manna lista yfir hjúkrunarfræðinga, sem eru margir hverjir í stjórnunarstöðum, með meðallaunatekjur upp á 791 þúsund krónur á mánuði.
Starfsmenn fjármálafyrirtækja eru hástökkvarar ársins, og virðast hafa hækkað mest í launatekjum. Tvö hundruð efstu í þeim geira fara úr 1,9 milljónum króna upp í 2,1 milljón að jafnaði á mánuði.