Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur skipað Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, í embætti héraðssaksóknara. Hún hefur einnig skipað Kolbrúnu Benediktsdóttur, saksóknara, í embætti varahéraðssaksóknara. Frá þessu er greint á vef innanríkisráðuneytisins.
Embætti héraðssaksóknara mun fara með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi, ákærumeðferð sakamála og saksókn fyrir héraðsdómi, Þá mun embættið annast lögreglurannsóknir í skatta- og efnahagsbrotamálum, ásamt rannsóknum á brotum starfsmanna lögreglu og brotum gegn valdstjórninni. Starfsemi embætti sérstaks saksóknara og skattrannsóknarstjóra mun því flytjast til þess þegar embætti héraðssaksóknara tekur til starfa 1. janúar 2016.
Upphaflega stóð til að skipa í embættið 1. október en tafist hefur að tilkynna um niðurstöðuna.
Embætti héraðssaksóknara og varahéraðssaksóknara voru auglýst 16. júlí og bárust fimm umsóknir um hvort embætti. Innanríkisráðherra fól nefnd að fara yfir umsóknir sem skilaði ráðherra rökstuddu áliti á hæfni umsækjenda og taldi hún alla umsækjendur uppfylla hæfisskilyrði.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, og Bryndís Björk Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sóttu bæði um embætti héraðssaksóknara. Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara sem hefur saksótt nokkur af stærstu hrunmálum þess, sóttist einnig eftir starfinu. Það gerðu Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og Hulda Elsa Bjögvinsdóttir saksóknari líka.
Fimm sóttu um starf varahéraðssaksóknara. Björn Þorvaldsson og Hulda Elsa Björgvinsdóttir sóttust líka eftir því starfi, líkt og starfi héraðssaksóknara. Það gerðu Arnþrúður Þórarinsdóttir, Kolbrún Benediktsdóttir og Daði Kristjánsson einnig.