Óleyfilegar fullyrðingar í markaðssetningu matvæla, sérstaklega fæðubótarefna, eru algengar. Þetta er niðurstaða eftirlitsverkefnis um næringar- og heilsufullyrðingar sem Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna stóð að og birtar voru í dag. Um slíkar fullyrðingar gildir sérstök löggjöf, reglugerð Evrópusambandsins um næringar- og heilsufullyrðingar er varða matvæli sem tók gildi árið 2007 og var innleidd í íslenska löggjöf árið 2010. Einungis er leyfilegt að nota þær fullyrðingar sem uppfylla skilyrði í reglugerð u heilsufullyrðingar og eru á listum ESB yfir leyfilegar fullyrðingar og með þeim skilyrðum sem þar koma fram.
Stofnanirnar segja að óleyfilegar fullyrðingar komi fram í merkingum á vörunum en einnig í ýmsu markaðsefni sem notað er við markaðssetningu. Niðurstaðan sé sú „að verulega skorti á að allar fullyrðingar sem notaðar voru við markaðssetningu matvæla væru í samræmi við gildandi reglur. „Staða þessara mála hefur ekki batnað síðan síðasta eftirlitsverkefni um næringar- og heilsufullyrðingar var framkvæmt árið 2017.“
Í verkefninu var reynt að skoða sérstaklega vörur sem bera fullyrðingar um að þau styrki ónæmiskerfi líkamans og fullyrðingar um efni sem koma í veg fyrir eða draga úr líkum á sjúkdómum, svokallaðar sjúkdómsfullyrðingar. Yfirleitt er hér um að ræða fæðubótarefni sem geta innihaldið margs konar virk efni. Þau algengustu eru A-, C-, D-, E-, B6- og B12-vítamín og steinefni s.s. járn, kopar og selen og einnig astaxantín, ýmsar fitusýrur og meltingarörverur (probiotics) auk ýmissa annarra efna sem ekki falla í þessa flokka.
Framkvæmd eftirlits var ýmist hefðbundið eftirlit sem fór fram á smásölustað, s.s. í stórverslunum, apótekum og sérvöruverslunum með fæðubótarefni. Einnig var framkvæmt rafrænt eftirlit með heimasíðum dreifingar- og söluaðila, á samfélagsmiðlum og loks auglýsingum í fylgiblöðum dagblaða.
Vörurnar sem voru skoðaðar voru upprunnar frá Íslandi, Evrópusambandinu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Flestar óleyfilegar fullyrðingar fylgdu vörum frá Bandaríkjunum en þar gildir önnur löggjöf um fullyrðingar við markaðssetningu matvæla heldur en í Evrópu.
Í Evrópu gilda hins vegar aðrar reglur og þar er einfaldlega óheimilt að markaðssetja matvæli með heilsufullyrðingum án þess að þær hafi verið sérstaklega leyfðar.
Fullyrðingarnar sem fylgdu vörunum sem skoðaðar voru í tengslum við eftirlitsverkefnið voru að miklu leyti að finna í íslensku markaðsefni, s.s. í auglýsingabæklingum, en ekki á merkingum varanna.
Fullyrðingar voru einnig áberandi í reynslusögum sem notaðar eru við markaðssetningu. „Reynslusögur eru kostaðar auglýsingar þar sem vara er auglýst með því að einstaklingur lýsir góðri reynslu sinni af vörunni og oft er vafið inn í textann einhverskonar fróðleik og fullyrðingum um virkni ákveðinna efna,“ segir í skýrslu stofnanna um niðurstöðu verkefnisins. Bent er á að sömu reglur gilda um reynslusögur og aðrar tegundir markaðssetningar.
Vara sögð draga úr hættu á ákveðnum sjúkdómum
Þrír flokkar óleyfilegra fullyrðinga voru sérstaklega áberandi en það voru fullyrðingar sem vísa í hlutverk næringarefnis eða annars efnis í vexti, þroskun og starfsemi líkamans, fullyrðingar um að varan dragi úr sjúkdómsáhættu sem og ósértækar fullyrðingar, segir í skýrslunni. „Strangar reglur gilda um notkun fullyrðinga en því miður virðist sem matvælafyrirtæki séu ekki meðvituð um þær reglur eða einfaldlega kjósi að fylgja þeim ekki.“
Stjórnendur matvælafyrirtækja bera ábyrgð á að allar fullyrðingar sem notaðar er við markaðssetningu matvælanna, hvort sem um er að ræða fullyrðingar á matvælunum sjálfum eða í markaðsefni þeirra, uppfylli ákvæði laga og reglugerða sem þetta varðar.
Dæmi um óleyfilegar heilsufullyrðingar sem stofnanirnar gera athugsemdir við:
„Mjólkurvörur bæta tannheilsu barna“
- Heilsufullyrðing sem vísar til þroskunar og heilbrigðis barna (1. mgr. 14. gr. reglugerðar ESB nr. 1924/2006).
„D-vítamín er hollt og gott fyrir líkamann.“
- Ósértæk heilsufullyrðing (3. mgr. 10. gr. Reglugerðar ESB nr. 1924/2006).
„Þeir sem borða ekki þetta fæðubótarefni mega búast við lakari líkamlegri heilsu“
- Heilsufullyrðing sem gefur til kynna að það geti haft áhrif á heilbrigði ef matvælanna er ekki neytt (a-liður 12. gr. reglugerðar ESB nr. 1924/2006).
„Þeir sem borða 2 töflur af XX á dag mega búast við að léttast um 5 kg á viku.“
- Heilsufullyrðing sem vísar til þess hversu hratt eða mikið þyngdartap kunni að verða (b-liður 12. gr. reglugerðar ESB nr. 1924/2006).
„NN bæklunarlæknir á Landspítalanum mælir sérstaklega með XX fyrir liðina“
- Heilsufullyrðing sem vísar til meðmæla einstakra lækna eða fagfólks í heilbrigðisþjónustu (c-liður 12. gr. reglugerðar ESB nr. 1924/2006).
„A-vítamín bætir starfsemi lungna og eykur súrefnisflæði í líkamanum.“
- Heilsufullyrðing sem vísar í hlutverk næringarefnis eða annars efnis í vexti, þroskun og starfsemi líkamans (a-liður 1. mgr. 13. gr. reglugerðar ESB nr. 1924/2006).
„LA sýra stuðlar að andlegum og vitsmunalegum þroska“
- Heilsufullyrðing sem vísar í sálræna og atferlislega starfsemi (b-liður 1. mgr. 13. gr. reglugerðar ESB nr. 1924/2006).
„Hjálpar til við að draga úr sykurfíkn“
- Heilsufullyrðing sem vísar í megrun, þyngdarstjórnun eða minni svengdartilfinningu eða aukna tilfinningu fyrir saðningu eða skert orkuinnihald fæðunnar (c-liður 1. mgr. 13. gr. reglugerðar ESB nr. 1924/2006).
„XX dregur úr niðurbroti brjósks í stoðkerfi líkamans“
- Heilsufullyrðing sem fullyrðir að dregið sé úr sjúkdómsáhættu (1. mgr. 14. gr. reglugerðar ESB nr. 1924/2006).