Óli Halldórsson hefur af persónulegum ástæðum ákveðið að víkja frá áformum sínum um að leiða framboð Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum. Óli greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Hann tók þessa ákvörðun vegna alvarlegra veikinda eiginkonu sinnar.
„Alvarleg veikindi hafa komið upp hjá eiginkonu minni, sem haft hafa í för með sér ófyrirséðar áskoranir. Í forystuhlutverk í pólitík landsmála fer maður ekki til smárra verka eða af hálfum hug. Ég tek því umboði sem mér var veitt í forvali VG af mikilli auðmýkt og virðingu en óska vinsamlegast eftir því að mínum aðstæðum verði sýndur skilningur. Með bjartsýni á batnandi heilsu og jafnvægi fjölskyldu minnar með tímanum mun ég vonandi hafa aðstæður til vaxandi þátttöku fyrir VG á ný,“ skrifar Óli á Facebook síðu sinni.
Stjórn kjördæmisráðs hefur gert tillögu að breytingu á röðun á lista flokksins í kjördæminu. Hún gerir ráð fyrir að Óli muni skipa þriðja sæti listans. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Jódís Skúladóttir myndu því færast upp um eitt sæti. Bjarkey myndi því leiða listann og Jódís yrði í öðru sæti hans. Bjarkey Olsen hefur setið á þingi fyrir flokkinn síðan árið 2013 og er þingflokksformaður hans. Jódís er sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi og persónuverndarfulltrúi hjá Austurbrú.
Breytingartillagan verður lögð fyrir fund í kjördæmisráði fyrir helgi, segir í tilkynningu frá flokknum.
Ég hef af persónulegum ástæðum ákveðið að víkja frá áformum um að leiða framboð VG í Norðausturkjördæmi til...
Posted by Óli Halldórsson on Friday, July 30, 2021