Ekki er unnt að fá upplýsingar um það hjá dómsmálaráðuneytinu hverjir það eru sem hafa á undanförnum árum sett fram ábendingar til ráðuneytisins eða réttarfarsnefndar um ýmsa þætti í dómskerfinu, þrátt fyrir að þessar ábendingar séu nefndar á meðal ástæðna fyrir því að fyrirhugað er að ráðast í breytingar á lögum um meðferð einkamál og sakamála og lögum um dómstóla.
Í umfjöllun um tilefni og nauðsyn lagasetningar í frumvarpsdrögum sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda á Þorláksmessu segir að dómsmálaráðuneytinu og réttarfarsnefnd hafi undanfarin fjögur ár borist „ábendingar um ýmis atriði sem reynslan hefur leitt í ljós að betur megi fara í hinu nýja hinu nýja regluverki um málsmeðferð fyrir þessum dómstólum og um önnur atriði sem ekki tengjast nýlegum breytingum á dómstólum og réttarfari.“
Engar fundargerðir og engin skrifleg erindi
Kjarninn beindi fyrirspurn til dómsmálaráðuneytisins og bað um að fá uppgefið hvaða ábendingar þetta væru og frá hverjum þær hefðu borist. Einnig bað blaðamaður um að fá afrit allra fundargerða frá réttarfarsnefnd ef þær gætu varpað ljósi á það hvaða ábendingar væri um að ræða og frá hverjum þær hefðu borist.
Í svari dómsmálaráðuneytisins við þessari bón blaðamanns var lítið af upplýsingum. Þar var því komið á framfæri að réttarfarsnefnd héldi ekki fundargerðir og því væri „engum slíkum til að dreifa.“
„Engin skrifleg erindi eða ábendingar liggja til grundvallar þeim frumvarpsdrögum sem lögð hafa verið fram,“ segir einnig í svari ráðuneytisins og hljóta ábendingarnar sem minnst er á í frumvarpsdrögunum því að hafa borist ráðuneytinu eða réttarfarsnefndinni með einhverjum öðrum hætti.
„Nefndin og ráðuneytið hafa það hlutverk að hafa vakandi auga með framkvæmd og málsmeðferð í íslensku réttarfari. Að eigin frumkvæði eru tekin til skoðunar atriði sem hugsanlega mættu betur fara, án þess að erindi eða ábendingar hafi sérstaklega borist um þau. Frumvarpsdrögin þarf því einfaldlega að meta á eigin verðleikum og með hliðsjón af þeim rökstuðningi sem fylgir,“ segir til viðbótar í svari ráðuneytisins.
Fjórir dómarar í réttarfarsnefnd
Í svarinu var einnig farið yfir hlutverk réttarfarsnefndar, sem er það að vera ráðherra til ráðgjafar á sviði réttarfars. Helstu verkefni nefndarinnar eru þau að vera dómsmálaráðherra til ráðgjafar um samningu frumvarpa og annarra reglna á sviði réttarfars, að semja frumvörp og aðrar reglur að beiðni ráðherra á því sviði og í samræmi við áætlun og áherslur ráðherra og að veita umsagnir um frumvörp og aðrar tillögur er varða réttarfar.
Í réttarfarsnefnd sitja þau Sigurður Tómas Magnússon, dómari við Hæstarétt Íslands og formaður stjórnar dómstólasýslunnar, sem jafnframt er formaður, Ása Ólafsdóttir, dómari við Hæstarétt, Ragnheiður Harðardóttir, dómari við Landsrétt, Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Benedikt Bogason, dómari við Hæstarétt.
Frumvarpsdrögin fóru sem áður segir inn í samráðsgátt stjórnvalda á Þorláksmessu og rann umsagnarfresturinn út þann 10. janúar. Fáar umsagnir bárust um efnisatriði þess og hefur Kjarninn heyrt frá einstaklingum í lögmannastétt sem hreinlega heyrðu ekki af framlagningu frumvarpsdraganna fyrr en umsagnarfresturinn var runninn út.
Nýdoktor gerði athugasemdir
Haukur Logi Karlsson nýdoktor í lögfræði við Háskóla Íslands gerði, eins og Kjarninn sagði frá fyrr í vikunni, athugasemdir við tvær breytingar sem lagt er til að gerðar verði vegna frumvarpsins, en báðar varða þær það hvernig dómarar eru skipaðir á Íslandi.
Hann sagði báðar breytingarnar, annars vegar um að dómstólasýslan fái heimild til þess að tilnefna starfandi dómara sem sinn fulltrúa í dómnefnd um hæfi umsækjenda um embætti dómara og hins vegar um afturhvarf til fyrri starfshátta hvað val á varadómurum varðar, vera til þess fallnar að auka um of völd dómarastéttarinnar til þess að hafa áhrif á hverjir verði skipaðir í embætti.
Það væri síðan aftur líklegt til þess að rýra traust almennings til þess hvernig dómarar eru skipaðir á Íslandi og þar með dómstóla.
Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu sagði að Ása Ólafsdóttir væri dósent við HÍ en hún er dómari við Hæstarétt síðan árið 2020. Stuðst var við óuppfærðar upplýsingar af vef réttarfarsnefndar í fyrri útg. fréttar.