Öllum starfsmönnum fiskvinnslufyrirtækisins Þórsbergs á Tálknafirði hefur verið sagt upp störfum. Samtals starfa 26 hjá fyrirtækinu, í fullu starfi. Þórsberg er stærsti atvinnurekandi á Tálknafirði.
Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að verið sé að kanna möguleika til að halda áfram rekstri og endurskipuleggja starfsemina, að því er fram kemur á vef RÚV.
Í tilkynningu segir að rekstrarhorfur hafi versnað, og að þetta hafi verið óhjákvæmileg aðgerð. „Á undanförnum misserum hefur fyrirtækið farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, aukningu hlutafjár frá eigendum, frekari kaup á aflaheimildum og samstarf um sérstakan byggðakvóta, í þeim tilgangi að styrkja reksturinn. Rekstrareiningin er ekki nægjanlega stór til þess að laða fram nauðsynlega hagkvæmni í rekstrinum. Fyrirtækið var stofnað árið 1975 og er stærsti atvinnuveitandinn í Tálknafirði. Það hefur undanfarin ár gert út línubátinn Kóp BA-175 og haldið úti vinnslu á ferskum, frystum og söltuðum fiskafurðum.“