Í kjölfar ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins að framlengja ekki samning við Rauða krossinn um réttaraðstoð og talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur öllum lögfræðingum félagsins verið sagt upp störfum. Að jafnaði starfa fimmtán lögfræðingar hjá Rauða krossinum á grundvelli samningsins.
Samningurinn gildir til febrúarloka en hægt hefði verið að framlengja hann í eitt ár til viðbótar. Ráðuneytið ákvað hins vegar að framlengja hann aðeins í tvo mánuði sem þýðir að óbreyttu að allir lögfræðingar Rauða krossins hætta störfum í lok apríl. Auk þeirra starfa t.d. 45 sjálfboðaliðar að jafnaði við þetta tiltekna verkefni innan Rauða krossins en slíkt fyrirkomulag er aðeins mögulegt hjá frjálsum félagasamtökum.
Rauði krossinn er óhagnaðardrifið félag og ber ekki hagnað af verkefninu og hefur félagið bent á að „hagkvæmni verkefnisins fyrir stjórnvöld [sé] því ótvíræð“.
Nú eru tæplega 600 einstaklingar í kerfinu sem notfæra sér þjónustu Rauða krossins að verulegu leyti, þar af um 400 umsækjendur sem enn eiga umsókn um alþjóðlega vernd til meðferðar hjá Útlendingastofnun eða kærunefnd útlendingamála.
Í frétt Vísis í gær, þar sem fyrst var greint frá uppsögnum lögfræðinganna, var haft eftir Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra að ekki væri víst að þjónustan við hælisleitendur yrði boðin út að nýju.
Eiga rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð
Áratugur er síðan stjórnvöld ákváðu að hælisleitendur ættu rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð og hefur Rauði krossinn sinnt henni frá árinu 2014 í kjölfar forútboðs á Evrópska efnahagssvæðinu. Við þá samninga var rætt að þegar Rauði krossinn myndi hætta verkefninu yrði með góðum fyrirvara hægt að byggja upp kerfi þar sem aðrir aðilar sem kæmu að talsmannaþjónustu gætu stigið inn í. „Sú vinna hefur ekki verið hafin, að minnsta kosti ekki með aðkomu Rauða krossins sem býr yfir miklu magni gagnlegra upplýsinga, hefur gagnabanka og verkferla sem munu ónýtast ef ekki eru gerðar ráðstafanir af hálfu ráðuneytisins um hvernig skuli byggja upp nýtt kerfi fari svo að Rauði krossinn muni ekki sinna verkefninu næstu árin,“ sagði í umsögn RKÍ við breytta skipan ráðuneyta í janúar.
Áhyggjur félagsins snúast fyrst og fremst að því að vegna þess skamma tíma sem ætlaður er tilfærslu verkefnisins til annars aðila verði rof í þjónustu við þennan viðkvæma hóp fólks.
Dómsmálaráðuneytið hefur gefið þá skýringu að með tilfærslu hluta þjónustu við hælisleitendur til annars ráðuneytis er ný ríkisstjórn var mynduð í nóvember, séu forsendur samningsins brostnar og ákvað að framlengja ekki samningnum út febrúar 2023 líkt og heimilt var að gera.
Meginmarkmið samningsins er að tryggja hlutlausa og óháða réttargæslu fyrir alla umsækjendur þannig að jafnræðis er gætt og að allir umsækjendur fái vandaða málsmeðferð. Áður en undir hann var skrifað sáu sjálfstætt starfandi lögmenn með mismikla þekkingu á málefnum flóttafólks um þjónustuna sem Útlendingastofnun greiddi fyrir – oft án samhengis við eðli og umfang máls. Raunin verð sú að gæði þjónustunnar voru afar mismunandi.
„Forsenda Rauða krossins fyrir samstarfinu var að samhliða starfi Rauða krossins yrði unnið að því að betrumbæta málsmeðferð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, hún stytt á sama tíma og gæði hennar yrðu bætt. Hvort tveggja hefur tekist á því tímabili sem hér um ræðir líkt og tölur um málsmeðferðartíma og viðurkenningarhlutfall umsækjenda sýna.“
Fókusinn á stjórnarmyndunarviðræður
Í umsögn sinni við breytta skipan ráðuneyta rakti Rauði krossinn samskipti sín við stjórnvöld í lok síðasta árs. Í núgildandi samningi er heimild til framlengingar til eins árs „ef samningsaðilar hefðu samið um slíkt fyrir lok nóvember 2021“.
Rauði krossinn hafði samband við dómsmálaráðuneytið þann 3. nóvember sl. til þess að kanna áform ráðuneytisins. „Í því samtali greindi Rauði krossinn frá áhættunni sem fylgir óvissu um framlengingu sem gæti haft þær afleiðingar að starfsfólk hyrfi til annarra starfa.“
Í svari ráðuneytisins sama dag kom m.a. fram að þar sem hvorki væri starfandi ríkisstjórn né ráðherra til þess að bera málið undir væri ekki hægt að svara því hvort samningurinn yrði framlengdur. Ráðuneytið myndi þó í öllu falli láta Rauða krossinn vita fyrir 1. desember sl. hvort af framlengingu yrði svo Rauði krossinn gæti gert ráðstafanir varðandi starfslok starfsmanna sem starfa á grundvelli samningsins. „Það var ekki gert og í raun barst ekki svar fyrr en Rauði krossinn innti ráðuneytið eftir svari með tölvupósti þann 2. desember sl. og þá barst óformlegt munnlegt svar að samningurinn kynni að vera í uppnámi vegna uppskiptingar málaflokksins á milli tveggja ráðuneyta.“
Skrifleg og formleg staðfesting þess efnis barst Rauða krossinum með tölvupósti 8. desember þar sem ráðuneytið taldi fyrirhugaðar breytingar valda forsendubresti samningsins og þar af leiðandi væri ekki hægt að framlengja hann. „Rauði krossinn telur reyndar óvíst hvort rétt sé að líta svo á að skipting málaflokksins á milli ráðuneyta geti talist fela í sér breytingar á forsendum samningsins enda fordæmi fyrir því að fleiri en eitt ráðuneyti komi að sama samningi og ætti íslenska ríkinu að vera fært að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum eftir sem áður.“
Vildu tryggja órofna þjónustu
Með hliðsjón af mikilvægi málaflokksins og fjölda opinna mála lagði Rauði krossinn tillögu fram í tölvupósti 10. desember þess efnis að núgildandi samningur við félagið yrði framlengdur til loka febrúar 2023 eins og heimilt er að gera. Markmið tillögunnar var að tryggja „órofna þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og vandaða og skilvirka málsmeðferð“.
Tillagan miðaði að því að stjórnvöld fengju nægan tíma til að klára fyrirhugað útboðsferli, þ.e. að undirbúa og framkvæma útboð og vinna samninga á grundvelli þess ásamt því að undirbúa tilfærslu opinna mála og verkefna frá Rauða krossinum ef ekki yrði samið á ný við félagið.
Tilfærsla opinna mála gæti þá hafist í haust til að tryggja að Rauði krossinn gæti gengið frá verkefninu í lok febrúar 2023, nema að nýr samningur yrði gerður við félagið um áframhaldandi þjónustu af öðru eða báðum ráðuneytum. Dómsmálaráðuneytið hafnaði tillögu Rauða krossins og lagði þess í stað til tveggja mánaða framlengingu, þ.e. til loka apríl í ár.
„Rauði krossinn harmar þá niðurstöðu ráðuneytisins að leggja einungis til tveggja mánaða framlengingu á núgildandi samningi,“ segir í umsögn félagsins. „Það tólf mánaða tímabil sem Rauði krossinn lagði til byggir á því mati að sá tími sé nauðsynlegur til að tryggja faglega og vandaða yfirfærslu verkefnisins og koma í veg fyrir að sú umfangsmikla þekking og verðmæta reynsla glatist sem byggð hefur verið upp á undanförnum árum. Þó svo að Rauði krossinn hafi samþykkt þá framlengingu sem ráðuneytið lagði til telur félagið að erfitt og jafnvel ómögulegt verði að tryggja órofna framkvæmd þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd með því fyrirkomulagi.“