Öllum sóttvarnaráðstöfunum innanlands verður aflétt eftir fjórar vikur, samkvæmt því sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag.
Aðgerðum verður aflétt í tveimur skrefum og fyrra skrefið tekur gildi á miðnætti í kvöld, en ráðgert er að öllum samkomutakmörkunum innanlands verði aflétt 18. nóvember.
Á morgun mega, samkvæmt því sem Svandís sagði við fréttamenn, 2.000 manns koma saman auk þess grímuskyldu verður aflétt (að frátöldum sérstökum reglum á heilbrigðisstofnunum) og opnunartími skemmtistaða verður lengdur um klukkustund frá því sem nú er.
Það þýðir að skemmtistaðir verða að hætta að hleypa fólki inn kl. 1 og vísa gestum sínum út kl. 2. Skráningarskyldu á viðburðum og veitingahúsum verður einnig aflétt.
Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum í dag um nýjasta minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, en þar setti hann fram þrjá möguleika hvað framhaldið varðar; að vera áfram með óbreyttar sóttvarnaráðstafanir innanlands, að slaka á þeim að hluta eða að aflétta öllum takmörkunum án tafar.
Nú er verið að aflétta aðgerðum að hluta og stefnt er að því að aflétta þeim að fullu eftir um fjórar vikur, „ef allt gengur vel,“ en haft er eftir Svandísi á vef mbl.is að áætlunin sé sett fram með „þessum fyrirvörum sem við þekkjum orðið mjög vel.“
Sóttvarnalæknir sagði í minnisblaði sínu að hann teldi afléttingar að hluta á þessari stundu til dæmis geta falist í afnámi grímuskyldu og því að fjöldatakmörk yrðu færð upp í 1.000-2.000 manns, eins og ákveðið hefur verið ráðast í.
Breytingarnar sem taka gildi á miðnætti:
- Almennar fjöldatakmarkanir 2.000 manns í stað 500.
- Nándarregla óbreytt 1 metri, með sömu undantekningum og verið hafa, s.s. á sitjandi viðburðum og þjónustu sem krefst mikillar nándar.
- Með notkun hraðprófa má víkja frá fjöldatakmörkunum og nándarreglu.
- Grímuskyldu aflétt að frátöldum sérstökum reglum á heilbrigðisstofnunum.
- Skráningarskyldu á viðburðum og veitingahúsum aflétt.
- Opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar lengdur um klukkustund, til kl. 01:00. Rýma þarf staði fyrir kl. 02:00.