„Ég var hissa á niðurstöðu dómnefndar. Mér fannst allir þrír umsækjendur afskaplega hæfir,“ segir Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, um skipan Karls Axelssonar í stöðu hæstaréttadómara, í viðtali við RÚV.
Eins og greint hefur verið frá, og fyrst kom fram í Kastljósi RÚV, þá telur dómnefnd, sem metur hæfi umsækjenda um stöðu Hæstaréttardómara, að Karl Axelsson hrl. sé hæfastur umsækjenda en aðrir umsækjendur voru Ingveldur Einarsdóttir og Davíð Þór Björgvinsson. Þau hafa bæði meiri menntun en Karl, og meiri reynslu af dómarastörfum.
Innanríkisráðuneytið hefur bent á að skipan hans í stöðu dómara brjóti í bága við jafnréttislög, en einungis einn af níu dómurum Hæstaréttar er kona. „Þessar reglur um skipan dómara eru ekki nýjar af nálinni, þær eru frá 2010. Öðru hvoru hafa komið upp spurningar hvort það sé ástæða til að skoða þetta ferli upp á nýtt. Hvort að það sé sjónarmið uppi um að ráðherra hafi úr einhverju að spila þegar verið er að velja,“ sagði Ólöf í viðtali við RÚV.
„Þarna erum við að tala um afskaplega hæft fólk sem þarna sækir um. Mér finnst þetta benda til þess að það sé ekki úr vegi að endurskoða reglur um skipan dómara,“ sagði Ólöf.
Auglýsing