Notkun ólöglegra lyfja til þess að bæta árangur er mun útbreiddari í frjálsum íþróttum en áður var talið, en samkvæmt rannsókn sem unnin var á fimm þúsund einstaklingum í frjálsum íþróttum var einn af hverjum sjö með ólögleg lyf í blóðinu. Frá þessu er greint í The Sunday Times í dag, en þýska sjónvarpsstöðin ARD/WRD hefur gögn um rannsóknina einnig undir höndum og hefur greint frá helstu niðurstöðum.
Í frétt Sunday Times af málinu segir að tveir af fremstu sérfræðingum heims í ólöglegri lyfjanotkun hafi verið fengnir til að fara yfir gögnin og sannreyna niðurstöðurnar, þeir Robin Parisotto og Michael Ashenden. Alþjóða frjálsíþróttasambandið, IAAF, hefur gögnin til skoðunar og rannsóknar, og er talið að þeim hafi verið lekið þaðan til fjölmiðla. Gögnin þykja mikið áfall fyrir frjálsar íþróttir í ljósi þess hversu útbreidd inntaka á ólöglegum lyfjum virðist vera innan frjálsíþróttahreyfingarinnar.
Meðal þess sem Parisotto og Ashenden telja sig geta ráðið af gögnunum er að 146 verðlaun sem unnið var til í langhlaupum og göngugreinum á ólympíuleikum og heimsmeistaramótum, á árunum 2001 til og með 2012, hafi farið til fólks sem hafi verið að nota ólögleg lyf. Þetta er þriðjungur allra verðlauna í þessum greinum, og af þeim eru 55 gullverðlaun. Enginn þessara 146 verðlaunahafa hefur verið sviptur sínum verðlaunum.
Fram kemur í gögnunum sem vísað er til að ekkert óeðlilegt, eða sem bendir til inntöku ólöglegra lyfja, hafi fundist í blóði spretthlauparans Usian Bolt frá Jamaíka, sem er heimsmethafi í 100 og 200 metra hlaupi.
World anti-doping body 'very alarmed' by new scandal in athletics http://t.co/Om439paS0i #WADA #doping
— Agence France-Presse (@AFP) August 2, 2015