Verkefnishópur innviðaráðuneytisins um smáfarartæki, sem skipaður var í upphafi þessa árs, leggur til að refsivert verði að stjórna rafdrifnum smáfarartækjum á borð við rafskútur (rafhlaupahjól) ef magn áfengis í blóði er meira en 0,5 prómill.
Í dag flokkast þessi tæki sem reiðhjól samkvæmt lögum og hvað ölvun á reiðhjólum varðar segir í lögum að refsivert sé að stjórna reiðhjóli og þar með rafhlaupahjóli ef fólk er ekki fært um að stjórna tækinu örugglega vegna neyslu áfengis.
Þó er ekki að finna hlutlæg mörk um magn áfengis í blóði eða útöndunarlofti sem miða skal við líkt og þegar um vélknúin ökutæki er að ræða. Starfshópurinn leggur til að slíkum hlutlægum mælikvörðum verði beitt þegar um er að ræða smáfarartæki með sama hætti og þegar um er að ræða vélknúin ökutæki á borð við t.d. bifreiðar og bifhjól.
Hópurinn telur einnig, að því gefnu að tillögur hans um bæði ölvun við akstur og 13 ára aldurstakmark gangi eftir, að leyfa skuli akstur rafknúinna smáfarartækja í almennri umferð á götum þar sem hámarkshraði er 30 kílómetrar á klukkustund eða lægri.
Í dag má einungis vera á rafhlaupahjólum á hjólastígum og gangstéttum og hafa sumir notendur bent á að stundum væri öruggara að vera á götunum, þar sem gangstéttir eru víða ósléttar.
Á meðal úrbótatillagna sem verkefnishópurinn setur fram, í skýrsludrögum sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda í gær, er einnig að sett verði mörk á afl smáfarartækja með það að markmiði að mögulegur hámarkshraði þeirra fari ekki yfir 25 kílómetra á klukkustund. „Engin samleið er með umferð gangandi vegfarenda og rafhlaupahjóla sem aka á 70 km/klst. hraða,“ segir um þetta í skýrslunni.
Í tillögu hópsins er gengið út frá því að hámarksafl farartækjanna verði 1000 wött, en það eru sömu mörk og eru nú í Finnlandi. Rafmótor hjólanna frá leigufyrirtækinu Hopp er 700 wött, samkvæmt því sem fram kemur í skýrsludrögunum.
39 prósent slasast á djammtíma
Starfshópurinn var skipaður til þess að koma fram með tillögur um aðgerðir sem miða að því búnaður, umhverfi og notkun smáfarartækja séu örugg, auk þess að styðja við innleiðingu fjölbreyttra og umhverfisvænna fararmáta.
Skýrslan fjallar að miklu leyti um rafskútur, sem hafa orðið afar vinsæll ferðamáti á allra síðustu árum. Áætlað er að 2,5 milljónir ferða verði farnar með leigðum rafskútum á þessu ári, auk þess sem um 30 þúsund hjól eru í einkaeigu hérlendis.
Vinsældum þessa nýja fararmáta hafa fylgt áskoranir, sem fjallað er um í skýrslunni, en þar kemur fram að 17 prósent allra sem slösuðust alvarlega í umferðinni á Íslandi í fyrra hafi verið á rafhlaupahjóli er slysið varð, þrátt fyrir að akstur á rafhlaupahjólum sé innan við 1 prósent af allri umferð í landinu.
Ölvun hefur verið áberandi í þessum hópi slasaðra, samkvæmt rannsókn sem neyðarmóttaka Landspítalans gerði, en stór hluti slysa á sér stað seint um kvöld á föstudögum og laugardögum. 39 prósent þeirra sem slösuðust alvarlega á rafskútum árið 2021 slösuðust á djammtíma,
Þessar staðreyndir, auk viðhorfa ungs fólks á aldrinum 18-24 ára í garð þess að vera ölvuð á rafskútum, þóttu gefa tilefni til aðgerða. Í könnun sem Samgöngustofa gerði í fyrra kom fram að um 40 prósent þeirra á aldrinum 18-24 ára sem á annað borð höfðu prófað rafhlaupahjól höfðu notað slík tæki undir áhrifum áfengis.
Verkefnishópurinn er skipaður fulltrúum lögreglunnar, innviðaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Samtaka sveitarfélaga, Vegagerðarinnar og Samgöngustofu.
Fréttin hefur verið uppfærð með árettingum þess efnis að í dag er þegar refsivert að stjórnar rafhlaupahjólum, rétt eins og reiðhjólum, ef fólk er ekki fært um að stjórna tækinu örugglgea vegna neyslu áfengis.