Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk, kallar eftir ábyrgð dómsmálaráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, og staðgengils forstjóra Útlendingastofnunar, Þorsteins Gunnarssonar eftir að kærunefnd útlendingamála felldi úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að fella niður þjónustu umsækjanda um alþjóðlega vernd fyrir að vilja ekki undirgangast PCR-próf. Allt að tuttugu manns lentu á götunni í kjölfar ákvörðunarinnar.
„Ég myndi nú bara segja að þau ættu að segja starfi sínu lausu. Það er ekkert flóknara en það. Við erum bara komin með allt of mörg dæmi um vanhæfni Útlendingastofnunar og áhugaleysi stjórnvalda að gera betur í málefnum fólks á flótta. Og þetta hreinlega gengur ekki lengur. Það eru allir uppgefnir á þessu og við hreinlega verðum að fá fólk sem hefur mannúð og réttlæti að leiðarljósi til þess að vinna að málefnum fólks á flótta. Það þarf að fara í alvarlegar umbætur og jafnvel breytingar í kringum þennan málaflokk í íslensku samfélagi,“ segir hún í samtali við Kjarnann.
Telur Sema Erla að leggja eigi Útlendingastofnun niður. Stofnunin geri meira ógagn en gagn – og ætti það að vera hluti af algjörri endurskoðun í málefnum útlendinga hér á landi.
Hvaða þýðingu hefur ákvörðun sem þessi, að hætta að veita þessum viðkvæma hópi þjónustu?
Semu Erlu finnst með ólíkindum að Útlendingastofnun hafi tekið þá ákvörðun að fella niður þjónustu.
„Við erum að tala um þjónustu sem er til þess fallin að uppfylla grundvallarréttindi einstaklingsins. Stofnunin tekur af þeim húsnæði, hún tekur af þeim framfærslupening og hún fellir niður læknisþjónustu hjá þessum einstaklingum. Hún bókstaflega setur þá á götuna í landi þar sem þeir eru ekki með neinn stuðning, ekkert bakland; þeir eru allslausir og einir á götunni.“
Hún segir að mjög auðvelt sé að sjá að slíkt sé ólöglegt og samræmist hvorki lögum né gildum og viðmiðum sem við sem samfélag höfum – eða allavega þykjumst hafa. „Þetta er auðvitað áfellisdómur, bæði yfir Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra þegar kærunefnd útlendingamála í rauninni staðfestir ólögmæti þessara aðgerða. Vegna þess að bæði staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar og ráðherra hafa reynt að halda því fram að þetta hafi verið löglegt – áður en það var úrskurðað ólöglegt.“
Hún bendir á að Rauði krossinn, lögmenn þessara einstaklinga og fleiri hafi bent á það strax í upphafi þegar ákvörðunin um að fella niður þjónustuna var tekin fyrir um þremur mánuðum að hún væri ólögleg.
„Samt sem áður hættir Útlendingastofnun ekki að vísa fólki á götuna fyrr en það er búið að taka af þeim valdið til að gera það.“
Sorglega að enginn muni axla ábyrgð
Sema Erla segir að aðgerðir Útlendingastofnunar séu ómannúðlegar, kaldrifjaðar og forkastanlegar. „Þær eru okkur sem samfélagi til háborinnar skammar, að æðstu stjórnendur útlendingamála gerist sekir um aðgerðir eins og þessar. Þetta eru sömu aðilar og eru ábyrgir fyrir því að vernda þá sem sækja um hæli og veita þeim þjónustu meðan þeir eru hérna á landinu.“
Þannig hafi þessi æðstu stjórnendur gerst brotlegir í starfi. „Það sorglega er að enginn mun axla ábyrgð á þessu.“
Nokkrir þeirra sem voru á götunni eftir ákvörðun Útlendingastofnunar hafa fengið að snúa til baka í húsnæði á þeirra vegur, að hennar sögn. „Það hefur enginn beðist afsökunar og við höfum ekki fengið að heyra neitt um að það eigi að gera einhverjar breytingar svo þetta endurtaki sig ekki. Þvert á móti er alltaf verið að reyna að troða í gegn lögum á Alþingi sem í raun munu gera þetta löglegt fyrir yfirvöld. Þannig að þetta er afskaplega sorglegt og maður skammast sín fyrir að við sem samfélag komum svona fram við fólk í neyð sem hefur leitað hingað að skjóli og vernd.“
Varðandi traust milli Útlendingastofnunar og umsækjenda um vernd, hefur þessi ákvörðun áhrif á það?
„Jú, ég held að það sé óhætt að segja að það traust hafi ekki verið mikið fyrir vegna þess að við þekkjum svo mörg dæmi um ómannúðlega og ósanngjarna meðferð á fólki á flótta og upplifanir þeirra eru oft mjög slæmar. Þetta er vissulega ekki til að bæta úr því.“
Sema Erla bendir á að hver umsækjandi um vernd sem hingað kemur til lands eigi rétt á ákveðinni grundvallarþjónustu. „Það eru réttindi sem hreinlega má ekki taka af neinni manneskju. Og það gerir Útlendingastofnun. Það er verið að koma svo illa fram við þá sem stofnunin á að vernda og sem betur fer sjáum við enn og aftur að almennir þegnar í íslensku samfélagi styðja upp til hópa ekki við svona aðgerðir en það voru margir sem komu þeim til aðstoðar þegar þeir lentu á götunni. Það svelti enginn þrátt fyrir að það hafi átt að svelta þá til hlýðni, ef svo má að orði komast.
Aðgerðir sem þessar eru auðvitað ekkert annað en kúgun og ofbeldi. Að við skulum vera með yfirvöld sem grípa til svo öfgafullra aðgerða er mikið áhyggjuefni. Að við séum með stofnanir sem leyfa sér að koma svona fram við fólk sem er þegar í viðkvæmri stöðu.“
Hvernig hefur þeim reitt af sem lentu á götunni og eru núna komnir aftur með þjónustu hjá Útlendingastofnun?
Sema Erla segir að þau hjá Solaris hafi verið í miklum samskiptum við þessa einstaklinga og verði það áfram. „Mín upplifun er svolítið sú að allir séu einfaldlega að jafna sig á þessu öllu saman. Þetta er búið að vera ótrúleg átök og maður getur einhvern veginn ekki ímyndað sér hver eftirköstin verða – hver áhrifin til lengri tíma verða. Við erum að tala um einstaklinga sem hafa nú þegar gengið í gegnum mjög erfiða reynslu þegar þeir koma hingað og í rauninni gerumst við þátttakendur í að auka álagið á þá með svona framkomu.
Þannig að þetta er vissulega áfall að verða fyrir svona framkomu. Ég held að við eigum eftir að sjá það með tímanum en ég veit að þeir eru afskaplega þakklátir þeim sem aðstoðuðu þá,“ segir hún.