Talsverð breyting verður á stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum þjóðkirkjunnar ef drög að landsfundarályktun verða samþykkt. Þar er opnað á aðskilnað ríkis og kirkju.
„Áhrif þjóðkirkjunnar á íslenskt samfélag eru bæði menningarleg og siðferðileg. Núverandi kirkjuskipan og aðskilnað ríkis og kirkju þarf að skoða með farsæld þjóðkirkjunnar og þjóðarinnar að leiðarljósi.“ Þetta er það eina sem sagt er um þjóðkirkjuna í drögum að landsfundarályktun. Þessi málsgrein um þjóðkirkjuna er í kaflanum mannréttindi, þar sem einnig er fjallað um trúfrelsi, sem teljist til almennra mannréttinda. „Trúariðkun er ekki æðri lögum.“
Í núverandi stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málum er orðalagið talsvert öðruvísi. Þar er sérstakur kafli um trúmál, en ekkert er minnst á önnur trúarbrögð eða trúfrelsi þar. Aðeins er talað um þjóðkirkjuna.
„Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá. Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga.“
Ólöf Nordal innanríkisráðherra er enn sem komið er eini frambjóðandinn til varaformanns flokksins á landsfundinum og málefni kirkjunnar eru á hennar könnu. Hún hefur tjáð sig talsvert um málefni kirkjunnar og í janúar var greint frá því að til stæði að endurgreiða kirkjunni 660 milljónir króna. Þá sagði hún að þjóðkirkjan væri „mjög mikilvæg stofnun í samfélaginu. Það er enginn vafi á því. Og ég lít mjög jákvæðum augum til kirkjunnar.“
Í lok september var Ólöf hins vegar á opnum fundi á Eskifirði þar sem hún var spurð um mögulegan aðskilnað ríkis og kirkju. Austurfrétt spurði hana um málið og hún svaraði þá: „Þarna á milli hafa verið deilur og ég held að málið sé komið á það stig að við þurfum að taka það allt upp og ræða hvernig þessi samskipti eiga að vera.“ Þessi mál yrði hins vegar ekki leyst á svipstundu, og stærsta úrlausnarefnið séu eignarréttarmál.