Opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis og Bankasýslu ríkisins, sem fara átti fram í fyrramálið, mánudaginn 25. apríl kl. 10, hefur verið frestað og er nú á dagskrá á miðvikudagsmorgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndasviði Alþingis. Þar segir að ný fréttatilkynning verði send út þegar nær dregur, en ekkert er tekið fram um ástæður frestunar fundarins.
Tildrög fundarins eru sala á 22,5% hlut í Íslandsbanka sem fram fór 22. mars síðastliðinn, en framkvæmdin hefur verið harðlega gagnrýnd síðan listi yfir kaupendur var birtur 30. mars. Í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að það rétta í stöðunni væri að leggja niður Bankasýslu ríkisins, en á fundinum á morgun átti Bankasýslan að gera grein fyrir skýrslu sinni um söluferlið.
... og Bankasýslan mætir ekki á opinn fund á morgun. Einhver fyrirsláttur um að skýrsla sem þau eru búin að hafa rúman tíma til að klára sé ekki tilbúin og verði ekki tilbúin fyrr en á þriðjudaginn. Frestast til miðvikudags ... og dýrmætum tíma þingsins sóað.
— Bjorn Levi (@_bjornlevi_) April 24, 2022