Verði þróun á afslætti til kaupa á rafmagnsbílum með svipuðum hætti og Rafbílasamband Íslands sér fyrir sér gæti ábatinn af stuðningi við kaup á rafbílum verið jákvæður en ekki neikvæður eins og útreikningar Hagfræðistofnunar hafa leitt í ljós. Þetta segir Tómas Kristjánsson formaður Rafbílasambands Íslands í samtali við Kjarnann. Hann telur eðlilegt að stuðningur í formi afsláttar af virðisaukaskatti verði framlengdur en að dregið verði úr honum þegar verð rafbíla lækkar. Hann segir einnig að kílómetragjald geti verið farsæl lausn til þess að rukka fyrir akstur óháð því hvaða orkugjafi er notaður við aksturinn.
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um hefur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands metið þjóðhagslegan ábata af sumum þeirra aðgerða sem finna má í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Meðal þeirra aðgerða sem metinn var í skýrslu stofnunarinnar var stuðningur við kaup á rafbílum. Samkvæmt útreikningum stofnunarinnar er sú aðgerð metin þjóðhagslega óhagkvæm og að nettó ábati aðgerðarinnar sé neikvæður um sem nemur 38 milljörðum króna til ársins 2030 að núvirði.
„Ríkið er ekki að borga með rafbílunum“
Að mati Tómasar er ekki rétt að leggja að jöfnu kostnað annars vegar og svo tekjur sem ríkið lætur eftir í formi afsláttar af opinberum gjöldum hins vegar. „Það er verið að tala um allan kostnaðinn sem ríkið þarf að fara út í sem er náttúrlega algjör þvæla, því ríkið er ekki að borga með rafbílunum, ríkið verður af tekjum. Ríkið borgar ekki.“
Hann segir stuðning við rafbílakaup líka vera frábrugðna öðrum loftslagsaðgerðum því þar séu það einstaklingar sem koma í miklu meiri mæli að borðinu og framkvæmd aðgerðarinnar því með allt öðrum hætti heldur en í mörgum öðrum aðgerðum. „Það eru einstaklingar sem ákveða að eyða peningunum sínum í að kaupa rafmagnsbíl í staðinn fyrir eldsneytisbíl. Þetta er ekki eins og með mikið af öðrum hlutum sem voru nefndir í skýrslunni eins og endurheimt votlendis sem hefur ekkert með almenning að gera.“
Ekki hægt að gera ráð fyrir óbreyttum stuðningi
Stóra villan í útreikningum Hagfræðistofnunar að mati Tómasar er sú að stofnunin gerir ráð fyrir því að stuðningurinn verði óbreyttur á því tímabili sem horft er til í skýrslunni, til ársins 2030.
Samkvæmt virðisaukaskattslögum er virðisaukaskattur felldur niður af rafbílum upp að 1.320 þúsund krónum. Fleiri takmarkanir eru þó á niðurfellingu virðisaukaskattsins en til að mynda er kvóti á fjölda þeirra bíla sem má selja með þessari niðurfellingu, alls 20 þúsund. Heimild til niðurfellingar rennur auk þess út í lok árs 2023. Lögin hafa á síðustu árum verið uppfærð þannig að tímamörk heimildarinnar hafa verið framlengd og við síðustu uppfærslu í júní var kvótinn stækkaður úr 15 þúsund í 20 þúsund bíla.
Rafbílasambandið skilaði inn umsögn við síðasta frumvarp um breytingar á lögum um virðisaukaskatt þar sem lagt var til að afslátturinn yrði festur í sessi næstu fjögur árin en svo lagður niður í skrefum til ársins 2030.
Vilja framlengingu en segja eðlilegt að afslátturinn lækki
„Miðað við hvernig innflutningurinn hefur verið þá verður 20 þúsund bíla múrinn rofinn um mitt næsta ár. Ég sé það alveg fyrir mér að ríkisstjórnin muni framlengja þetta eitthvað,“ segir Tómas um afsláttinn af opinberum gjöldum sem hann vonar að fái framlengingu.
„Fólk er tilbúið til að borga aðeins meira fyrir rafbíla því sumir telja sig vera að kaupa grænt og aðrir sjá fyrir sér að rekstrarkostnaðurinn sé svo mikið lægri. Fólk er tilbúið að kaupa sér dýrari bíl því það veit að það borgar sig annars staðar. En ef virðisaukaskatturinn verður rukkaður upp í topp eftir eitt ár, þá er bíllinn allt í einu orðinn 1,5 milljón krónum dýrari. Það mun hafa áhrif á nógu marga til þess að það muni stórlega hægja á eftirspurn fólks í rafbíla.“
Hann bendir einnig á að eðlilegt sé að afslátturinn verði lækkaður þegar verð rafmagnsbíla lækkar. „Eftir fimm til sex ár verður rafhlaðan orðin svo miklu ódýrari heldur en hún hefur verið að innkaupsverð á rafbíl verður komið undir innkaupsverð á eldsneytisbílum. Þá er ekki rökrétt að vera með niðurfellingu á virðisaukaskatti. Þá þarf ekki þessa ívilnun til þess að jafna leikinn.“
Fari úr því að vera óhagkvæmust í að verða hagkvæmust
Fari það svo að afslátturinn muni þróast líkt og Tómas og rafbílasambandið sér fyrir sér mun það hafa veruleg áhrif á ábata loftslagsaðgerðarinnar sem snýr að stuðningi við kaup á rafbílum, kostnaðurinn á síðustu árum tímabilsins sem horft er til mun lækka til muna en ábatinn mun verða tiltölulega óbreyttur. Þannig gæti aðgerðin, þegar upp er staðið, orðið ábatasöm um sem nemur tugum milljarða í stað þess að hafa í för með sér nettó neikvæðan ábata upp á 38 milljarða eins og var niðurstaða Hagfræðistofnunar.
„Það breytir þessu úr því að vera óhagkvæmasta leiðin í loftslagsmálum yfir í að þetta er hagkvæmasta leiðin í loftslagsmálum. Þetta er grundvallarmunur,“ segir Tómas.
Talar ekki fyrir því að rafbílar keyri frítt
Að mati Tómasar er það einnig sanngjarnt að rafbílaeigendur borgi sinn hlut fyrir akstur, líkt og bílstjórar eldsnseytisbíla geri með þeim gjöldum sem lögð eru á bensín og olíu. Rafbílasambandið hefur því kallað eftir heildarendurskoðun á skattkerfinu í kringum öll ökutæki.
„Okkur finnst til dæmis sanngjarnt að það sé rukkað kílómetragjald eða einhver sambærileg skattlagning sem er tengd akstri ökutækja, alveg sama hvort það sé eldsneyti eða rafmagn. Sérstaklega þegar rafbílar eru komnir í teljandi hlutfall á vegunum. Þá er ekki rökrétt að þeir séu allir að keyra frítt enn þá, við erum ekki að tala fyrir því,“ segir Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands.