Konur eru í meirihluta þingheims í fyrsta skipti í sögunni. Á þessa leið hófust fréttir margra íslenskra fjölmiðla á sunnudagsmorgun er „lokatölur“ voru komnar í öllum kjördæmum landsins. Þær fóru líka eins og hvirfilbylur um allan heim. En svo dundu ósköpin yfir. Og hringekja fór af stað. Í rússíbananum sem hún leiddi af sér situr fremstur formaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Sú reið mun enda inni á Alþingi Íslendinga.
Hér að neðan verður þetta óvænta ferðalag sem þjóðin öll var tekin í rakið með orðum kjörstjórnarformannsins og héraðsdómarans, Inga Tryggvasonar.
26. september
Kl. 14.37
„Búið er að boða talningarfólk í Norðvesturkjördæmi til endurtalningar allra atkvæða í kjördæminu,“ stóð í því sem Kjarninn kemst næst fyrstu frétt sem flutt var í fjölmiðlum af áformaðri endurtalningu atkvæða eftir þingkosningarnar, aðeins um fimm klukkustundum eftir að yfirkjörstjórnirnar í kjördæmunum sex höfðu sent frá sér „lokatölur“.
Það var héraðsfréttamiðillinn Skessuhorn sem greindi frá. Ingi Tryggvason formaður yfirkjörstjórnar staðfesti tíðindin. „Ástæða þess að ákvörðun er tekin um endurtalningu er lítill munur á atkvæðamagni sem gæti þýtt tilfærslu á jöfnunarþingsætum, og þá jafnvel víðar en í þessu kjördæmi,“ stóð ennfremur í frétt Skessuhorns.
Kl. 14.57
Tuttugu mínútum síðar var fyrsti stóri landsfréttamiðilinn, Vísir, kominn í málið. „Við ákváðum þegar við sáum að það væri lítill munur að við myndum endurtelja. Við viljum bara útiloka það að þetta sé ekki í lagi,“ var haft eftir Inga í fréttinni.
Í frétt Vísis, sem birtist rétt fyrir kl. 15 og nokkru áður en talning hófst aftur sagðist Ingi ekki búast við að hún myndi hafa áhrif á hversu marga þingmenn flokkarnir fengju en að hún gæti víxlað jöfnunarsætum á milli kjördæma.
Kl. 15.12
Ingi var nokkrum mínútum síðar í viðtali við RÚV og sagði að enginn hefði óskað eftir endurtalningunni. Hún hafi verið ákvörðun yfirkjörstjórnar. Viðtalið birtist um kl. 15 og sagði hann þá að beðið væri eftir því að fá fólk á staðinn til þess að telja. Talningin ætti ekki að taka meira en þrjá tíma. Ef einhver skekkja kæmi fram gæti það haft áhrif á það í hvaða kjördæmum flokkarnir fá menn inn sem jöfnunarþingmenn.
Eins og átti svo heldur betur eftir að koma á daginn.
Kl. 17.44 og 18.02
„Það var mislesið hjá Viðreisn, þar fækkar atkvæðum um níu. Svo fækkaði atkvæðum hjá Miðflokknum um fimm. Á móti fjölgar hjá Sjálfstæðisflokki,“ sagði Ingi við RÚV tæpum þremur klukkustundum síðar. Endurtalningin hefði því leitt í ljós misræmi í talningu sem þýddi hræringar á jöfnunarmönnum þingflokka þótt þingstyrkur hvers flokks héldi sér.
Um kvöldið voru gagnrýnisraddir farnar að heyrast. Þær snérust fyrst og fremst um það hvernig staðið hefði verið að endurtalningunni og bent var á aðra meinta ágalla á framkvæmdinni, t.d. að kjörkassar hefðu ekki verið innsiglaðir.
Ingi var aftur mættur í viðtal á Vísi klukkan 21.23. Í því sagði hann rétt að kjörgögn hefðu ekki verið innsigluð „um leið“ en vísaði hins vegar gagnrýninni á bug og taldi ekki tilefni til að bregðast sérstaklega við henni. Kjörgögnin hefðu verið geymd inni í læstum sal á hótelinu.
„Þetta er bara alveg sama skipulag og hefur verið mjög lengi,“ segir hann.
En er þetta rétt, að þau hafi ekki verið innsigluð og skilin eftir?
„Já, ekki innsigluð. Það hefur aldrei verið gert. Þau eru bara skilin eftir og læst inn í salinn. Svo förum við heim og hvílum okkur í smá tíma og förum aftur á staðinn. Þetta er bara vinnulag sem er búið að vera eins lengi og ég veit. Það er ekkert innsiglað, það er engin aðstaða til að innsigla þetta. Menn ganga ekkert alveg frá þessu. Auðvitað væri það hægt, það væri náttúrulega hægt að klára þetta en þá væru menn að bara fram á miðjan dag og væru þá kannski ekkert búnir að sofa í tvo sólarhringa.“
Þannig að þetta er rétt hjá honum, en þú vísar því á bug að það sé eitthvað athugavert við þetta?
„Já, já. Eins og ég segi, þetta hefur bara tíðkast og er bara venjubundið. Það hafa aldrei verið nein vandamál í sambandi við þetta,“ svaraði Ingi blaðamanni Vísi.
27. september
Kl. 11.33
Á mánudeginum voru fjölmiðlar enn að spyrja Inga út í innsiglin. Þegar blaðamaður Mannlífs spurði Inga út í málið og vísaði í lög sem segðu að kjörstjórn væri skylt að innsigla kjörgögn sagðist hann halda að betra væri að leggja áherslu á að læsa herbergjunum. „Það er spurning hvort fólk viti það hvað felst i innsigli,“ sagði Ingi og bætti við að ef einhver ætlaði sér inn í herbergið kæmi innsigli ekki í veg fyrir það. Enda væri um límmiða að ræða sem auðvelt væri að taka af og setja aftur á.
Ingi var einnig spurður hvort hann teldi að einhver annar gæti hafa haft aðgang að herberginu sagðist hann ekkert hafa bent til þess. „Allar vangaveltur um slíkt er bara bull.“
Formaður yfirkjörstjórnar í norðvestur sagði að það væri ekkert mál að eiga við þessi ómerkilegu innsigli. I call BS.
Posted by Jóhann Hjalti Þorsteinsson on Tuesday, September 28, 2021
Kl. 18.30
„Atkvæðin eru geymd inn í þeim sal þar sem talningin fer fram. Salurinn er þá læstur og það eru öryggismyndavélar í honum. Þetta er bara hefðbundið og hefur verið gert eins síðan ég tók þetta embætti að mér,“ sagði Ingi í frétt Vísis og Stöðvar 2 um kvöldið. Hann útilokaði að einhver hafi getað komið inn í salinn meðan yfirkjörstjórnin brá sér frá. „Við vitum það alveg að það fór enginn inn í salinn þann stutta tíma sem við vikum frá,“ sagði hann.
Kl. 18.52
„Ég hef engar áhyggjur af geymslunni á þessum gögnum. Það er algjörlega 100 prósent og meira en það að það fór enginn inn svæðið þennan stutta tíma sem að enginn úr yfirkjörstjórn var þarna staddur,“ sagði Ingi við fréttamann RÚV þetta sama kvöld.
Þannig að þetta er eingöngu mistalning?
„Eingöngu það, það er enginn vísbending um að óviðkomandi hafi farið inn á þetta svæði, það bara gerðist ekki.“
Í sömu frétt var haft eftir Kristínu Edwald, formanni landskjörstjórnar: „Þetta er bagalegt mál, þetta er mjög óheppilegt. Trúverðugleiki kosninga er auðvitað gífurlega mikilvægur og þess vegna höfum við í raun þessa þrjá öryggisventla.“
Kl. 19.35
Kjarninn bað Inga að útskýra tímalínu atburða, ástæður þess að ráðist var í talningu atkvæða og ástæður þess að kjörgögn voru ekki innsigluð. Ingi sagði að talningu hafi verið lokið í kjördæminu „um kl. 7, hálf-átta“ á sunnudagsmorgun, en lokatölur úr kjördæminu voru gefnar út um kl. 7:40. Að því búnu hafi hann sjálfur farið heim til hvíldar, en flestir aðrir sem að talningunni komu hafi lagst til hvílu á Hótel Borgarnesi þar sem atkvæðin voru talin.
Atkvæðin hefði verið skilin eftir í læstum sal hótelsins og játaði því að ekki hafi verið sett innsigli á hurðina. Kjörgögnin sjálf hafi ekki heldur verið innsigluð.
Hann sagðist telja ýmsa veita því of mikið vægi að innsigli hefðu ekki verið notuð, þar sem einungis væri um að ræða „límmiða“, en viðurkenndi þó að sennilega hefði verið heppilegra að innsigla kjörgögnin.
Spurður hvort rýnt hefði verið í myndefnið á öryggismyndavélunum á Hótel Borgarnesi svaraði Ingi að það hefði ekki verið gert svo hann vissi til, en hann sagðist þó fullviss um að enginn hefði farið inn í salinn þangað til yfirkjörstjórn sneri aftur til starfa um hádegisbil á sunnudag.
Ingi sagði enn fremur að ábending hefði borist frá landskjörstjórn um að það munaði litlu að jöfnunarmannahringekja á landsvísu færi af stað ef einhverju skeikaði í talningu í kjördæminu. „Þá ákváðum við að skoða einn listabókstaf og þá kom það í ljós að það höfðu mislagst þar nokkur atkvæði og fyrst að það var svona var ákveðið að endurtelja þetta allt til að þetta væri allt pottþétt.“
28. september
Kl. 12.08
„Mannlegu mistökin felast í því að niðurstöður talningarinnar voru ekki alveg réttar,“ sagði Ingi í viðtali við Vísi í hádeginu í gær, þriðjudag.
En það bætast þarna ógildir seðlar við, hvað er ógilt við þá?
„Það verður breyting á milli ógildra og auðra seðla. Lengi vel var þetta talið saman auðir og ógildir og það fjölgaði sem sagt ógildu seðlunum vegna þess að þeir höfðu farið með auðu seðlunum. Það er bara það sem gerðist.“
Hann talaði að mistökin fælust í að atkvæði hefðu mislagst í svonefndan C-bunka þar sem þau áttu í raun ekki að vera.
Um innsigli eða skort á þeim, sagði Ingi: „Ég tel að þessara gagna hafi bara alveg verið gætt á fullkominn hátt og hef heldur engar áhyggjur af því.“
Um þá kröfu frambjóðenda að endurtalningin yrði gerð ógild sagði Ingi: „Ef menn vilja ekki leiðrétta mistök þá er það allt í lagi. Ég hef bara alltaf litið svo á að ef það eru gerð mistök ætti að leiðrétta þau. Ef það á ekki að gera það í þessu máli, þá finnst mér það svolítið sérstakt en þetta veldur mér engu hugarangri. Ég biðst velvirðingar á þessum mistökum bara.“
Hvað varðaði þá gagnrýni að ekki hefði verið haft samband við alla umboðsmenn flokka áður en endurtalning hófst sagði hann: „Þeir hafa ekkert um það að segja hvort endurtalning fer fram eða ekki. Þeir voru látnir vita af endurtalningunni og voru sumir viðstaddir hana.“
Kl. 12.38
Til tíðinda bar svo í hádeginu er Stundin greindi frá því að tengdadóttir hótelstjórans á hótelinu í Borgarnesi hefði birt mynd á Instagram af óinnsigluðum atkvæðum. Konan sem tók myndirnar virtist vera ein í salnum, sagði frétt Stundarinnar.
Kl. 13.25
Ingi kveðst í samtali við Vísi skömmu síðar ekki hafa séð myndir hótelstarfsmannsins en að þær væru að öllum líkindum teknar í anddyrinu að salnum rétt eftir að talningu lauk. „Ég var þarna dáldið fram eftir þegar starfsfólk kjörstjórnarinnar var farið heim að ganga frá og svona og það er opið á milli forstofu og gangs á hótelinu og salarins. Starfsfólk hótelsins var einnig eitthvað í þeirri forstofu á meðan ég var að klára og hún gæti vel hafa tekið myndina þá,.“
Kl. 13.31
Í viðtali við Fréttablaðið var Ingi spurður hvort að myndir konunnar hefðu vakið spurningar um lögmæta meðferð kjörgagna og hvort hver sem er geti myndað þau. „Já, eftir klukkan 22 á meðan á talningunni stóð. Þá er hægt að mynda inn í salinn.“
Er ekki um að ræða brot?
„Nei, það er meira að segja streymt stundum frá talningu. Það eru ekki allir sem fá að fara inn í salinn en margir sem geta tekið mynd.“
Kl. 14.51
Ingi sagði í viðtali við Fréttablaðið síðar um daginn að hann hefði beðist afsökunar á að framkvæmd talningar og að meðferð kjörgagna hafi ekki gengið sem skyldi. Hann teldi sig hafa sýnt auðmýkt með því að viðurkenna mistök.
Spurður hvort hann teldi að lögreglurannsókn sem Karl Gauti Hjaltason, frambjóðandi Miðflokksins, hefði farið fram á myndi leiða í ljós saknæmt háttalag, spurði Ingi á móti: „Er saknæmt að gera mistök?“
Kl. 15.50
Ingi var aftur í viðtali við Stundina um miðjan dag og sagðist þá ekki ætla að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum á Hótel Borgarnesi. Hann sagðist ekki hafa tölu á því hversu margir lyklar væru að salnum sem kjörstjórn yfirgaf í sex klukkutíma án þess að innsigla. Starfsmenn hótelsins hefðu ekki átt að hafa aðgang að salnum en að lyklarnir væru margir.
„Ég veit ekki hvað eru til margir lyklar að þessum inngöngum. Þetta er hluti af hótelinu, þetta er ekki húsnæði sem yfirkjörstjórn á. Það geta verið 50 lyklar að þessu plássi, ég veit það ekki. Við létum ekki skipta um skrá á húsnæðinu.“
Hann ítrekaði að hann hefði ekki áhyggjur af því hvernig kjörgögn voru geymd á meðan kjörstjórn var ekki á staðnum. „Það getur vel verið að starfsmenn hótelsins hafi haft aðgang að þessu rými.“
Aðspurður að því hvort hann hafi rætt við starfsmanninn sem tók myndirnar eftir að málið kom upp svaraði Ingi „að það komi málinu ekkert við“. Sama sagði hann eiga við þegar hann var spurður út í það hvort hann þekkti starfsmanninn persónulega. „Það kemur málinu ekkert við.“
Hann sagði að kjörstjórn myndi ekki fá upptökur úr öryggismyndavélum vegna persónuverndarlaga.
Viljið þið ekki vita hvort það hafi einhver farið inn í salinn þegar þið voruð ekki þar?
„Við vitum að svo var ekki.“
Hvernig veist þú að svo var ekki?
„Af því að ég veit það.“
Finnst þér ekkert alvarlegt að starfsmenn hótelsins hafi haft aðgang að salnum á meðan þið voruð ekki þar?
„Það var ekkert óeðlilegt við aðganginn að því rými sem þetta var geymt í eða aðgangi að gögnunum meðan við vorum ekki á staðnum.“
En finnst þér þetta vekja traust á talningunni að þið viljið ekki athuga með öryggismyndavélarnar?
„Við þurfum ekki á því að halda.“
Þið treystið því bara að starfsmenn hótelsins hafi ekki verið að fikta í atkvæðunum?
„Já. Ég veit það alveg nákvæmlega.“
Þú treystir því bara?
„Treysti ég því? Já ég veit það.“
Hvernig veistu það?
„Af því að ég veit alveg nákvæmlega hvernig var gengið frá þessu áður en við fórum út úr salnum og hvernig þetta leit úr þegar ég kom aftur.“
En til að staðfesta það þarftu gögnin úr myndavélunum.
„Nei. Svo fæ ég ekkert þessi myndbönd út af persónuverndarlögum.“
Kl. 15.38
Í samtali við blaðamann mbl.is um svipað leyti sagði Ingi myndirnar sem konan tók af kjörgögnum í salnum ekki vera tortryggilegar. „Þessi mynd segir nú ekki neitt. Það sjást á þessari mynd átta kjörkassar og auð borð á bak við þá. Sú mynd er tekin við inngang í salinn þar sem var talið. Það getur hafa verið fullt af fólki inni í salnum þegar þetta var tekið. Það var ekkert í þessum kössum þegar þessi mynd var tekin, þetta eru kassar frá Ísafirði.“
Mannleg mistök hefðu orðið til þess að misræmi var í fjölda talinna atkvæða. Upplýsingar um heildarfjölda talinna atkvæða voru ranglega færðar inn í Excel-skjal. „Þetta var innsláttarvilla, sem gerð var eftir upphaflega talningu.“
Eru atkvæðin ekki stemmd af, sem sagt atkvæði greidd vs. atkvæði talin þarna í upphaflegu talningunni?
„Atkvæðin voru stemmd af upp úr öllum kössunum, miðað við skýrslu sem kjörstjórnir senda til okkar yfir atkvæði greidd í öllum kössunum. Og það stemmdi allt saman, en svo er bara innsláttarvilla í Excel-skjalinu sem er notað við lokauppgjörið og það kemur í ljós þegar við förum að skoða þetta um morguninn. Þá hafði sem sagt verið búið að slá inn tveimur of fáum atkvæðum.“
Spurður hvort trúverðugleiki kosningarinnar í Norðvesturkjördæmi og þar með traust til yfirkjörstjórnar sé brostið, hafnaði Ingi því. „Ég hef bara þá skoðun að ég veit ekki hvað ætti að valda því að það ætti að kjósa aftur. Og ég skil ekki heldur þá skoðun að það hefði ekki átt að endurtelja atkvæðin. Það kom í ljós, strax og við fórum að skoða málið eftir ábendingu, að það hafi átt sér stað mannleg mistök og í kjölfarið af því var ákveðið að telja aftur.“
Hann sagði einhverja vilja að fyrri niðurstaða yrði látin standa, en því væri hann ósammála. „Ef menn gera mistök, verður þá ekki að leiðrétta þau?“ spyr hann.
Kl. 16.10
Myndirnar tvær sem konan birti á Instagram voru enn umfjöllunarefnið er RÚV ræddi við Inga síðdegis. „Mér sýnist að þessi mynd sé tekin áður en ég fór, ég tók til að mynda með mér þessi gögn sem sjást á borðinu á annarri myndinni. Það var ekkert á borðinu þegar ég fór.“
Ingi skoðaði aðra myndina á meðan fréttastofa ræddi við hann og sagðist telja að hann hafi ekki verið farinn þegar hún var tekin. „Ég tók til að mynda þessi gögn sem sjást á henni með mér þegar ég fór á sunnudagsmorgun.“
Kl. 17.11
Í frétt Vísis skömmu síðar var haft eftir Inga að það væri alls ekki útilokað að starfsmenn Hótels Borgarness gætu hafa farið inn í sal hótelsins á meðan atkvæði voru geymd þar óinnsigluð. Hann fullyrti hins vegar að enginn hefði átt við gögnin, en að öryggismyndavélar úr salnum ættu að geta sannað að ekkert kosningasvindl var framið.
En hefði starfsfólk hótelsins alveg geta farið inn í salinn þegar þú varst farinn af svæðinu?
„Já, það gætu starfsmenn hafa farið inn í rýmið þarna að framan ef þeir þyrftu. Þar er meðal annars stjórnbúnaður og eitthvað þannig. Það getur vel verið að þau hafi farið þangað. En það eru öryggismyndavélar á svæðinu þannig það sést náttúrulega nákvæmlega ef það hefur einhver gengið þar um.“
Ingi ítrekaði þá fullvissu sína um að enginn hafi átt við kjörgögnin á milli talninganna. „Enda veit ég ekki hvar fólk hefði átt að fá kjörseðla. Þegar ég kom aftur var allt nákvæmlega eins og ég hafði gengið frá því. Það hefði ekki verið hægt að eiga við gögnin án þess að ég myndi sjá það.“
Kl. 18.15
Landskjörstjórn fjallaði á fundi sínum í gær um skýrslur sem yfirkjörstjórnir, m.a. í Norðvesturkjördæmi, höfðu skilað. Kristín Edwald, formaður landskjörstjórnar, las eftir fundinn upp bókun þar sem fram kom að ekki hefði borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi. Boltinn væri núna hjá Alþingi sem hefur það hlutverk samkvæmt stjórnarskrá að staðfesta úrslit þingkosninganna.
Greinin var uppfærð kl. 18.30 eftir að ábending barst um að Skessuhorn hefði fyrst miðla sagt frá fyrirhugaðri endurtalningu.