Landsvirkjun afhenti kísilverinu í Helguvík orku þegar það tók til starfa, en ekki var virkjað sérstaklega til að útvega þá orku. Samningurinn kvað á um 35 megavött eða 300 gígavattstundir.
Þetta segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. Arion banki, sem á kísilverksmiðjuna í Helguvík, greindi frá því í gær að viðræðum um möguleg kaup PCC á verksmiðjunni hefði verið slitið. Samhliða hefði bankinn sagt upp raforkusamningi við Landsvirkjun enda framleiðsla kísils forsenda samningsins.
Það er þó ekki þannig að með uppsögninni verði allt í einu 35 MW af orku á lausu í raforkukerfi okkar. „Þau ár sem liðin eru frá því að verksmiðjunni var lokað hefur sú orka, sem annars hefði farið til hennar, verið nýtt á annan hátt og verður það áfram,“ segir Ragnhildur. „Ákvæði um kaupskyldu kísilversins tóku aldrei gildi og því var engin kvöð á Landsvirkjun að hafa tiltæka orku fyrir kísilverið, enda ljóst að ef það yrði endurræst og kallað eftir orkunni yrði aðdragandi þess langur.“
Langri áfallasögu senn að ljúka?
Áfallasaga kísilversins í Helguvík er löng og hófst áður en kynt var upp í fyrsta og eina ljósbogaofni þess. Skipulagsstofnun gaf álit sitt á mati á umhverfisáhrifum 100 þúsund tonna ársframleiðslu félagsins Stakksbrautar 9 ehf. á kísli í Helguvík í Reykjanesbæ árið 2013. Umhverfisstofnun veitti félaginu starfsleyfi rúmu ári síðar. Starfsleyfið var svo flutt yfir á félagið Sameinað Sílikon hf.
Mannvirki verksmiðjunnar voru byggð á árunum 2014-2016. Þegar þau hófu að rísa fóru að renna tvær grímur á íbúa Reykjanesbæjar. Áttu húsin virkilega að vera svona stór og áberandi? Í matsskýrslunni sagði að verksmiðjan myndi „varla verða sjáanleg frá Keflavík“ og á myndum sem fylgdu litu þau allt öðruvísi út.
Þegar farið var að grafast fyrir um málið kom í ljós að hluti húsanna er þrettán metrum hærri en matsskýrslan og deiliskipulag gerði ráð fyrir og aðrir hlutar átta metrum hærri. „Mannleg mistök“ eru sögð hafa orðið til þess að teikningar sem húsin voru byggð eftir voru stimplaðar og þar með samþykktar hjá starfsmanni Reykjanesbæjar.
Kísilverið var gangsett 11. nóvember árið 2016 með einum ljósbogaofni sem fékk nafnið Ísabella. Fljótlega fóru íbúar í nágrenninu að finna óþef. Þegar í byrjun desember var slökkt á ofninum og tilkynnti Umhverfisstofnun Sameinuðu Sílikoni hf. að hann yrði ekki ræstur á ný fyrr en hún hefði metið yfirstandandi úrbætur.
Ísabella var óstöðug allt frá upphafi og átti ítrekað eftir að hiksta og hósta með tilheyrandi mengun þar til yfir lauk. Það kom alvarlega niður á fólki sem bjó í nágrenninu sem og bæjarfélaginu er stólað hafði á tekjur frá fyrirtæki sem var orðið gjaldþrota rúmu ári eftir að fyrstu neistarnir voru bornir að ofninum.
Helsti lánardrottinn fyrirtækisins, Arion banki, fékk svo að finna fyrir því og endaði að lokum með verksmiðjuna í fanginu. Bankinn hafði allt þar til nú þá stefnu að gera endurbætur á verksmiðjunni, auka framleiðslugetuna og selja hana. Skipulagsstofnun gaf út álit sitt á umhverfismatsskýrslu bankans, þar sem áformuð stækkun í allt að fjóra ljósbogaofna var metin, í lok síðasta árs.
Skömmu eftir að mati á umhverfisáhrifum lauk hófust formlegar viðræður við PCC, eiganda kísilversins á Bakka, um möguleg kaup á verksmiðjunni. Þeim hefur eins og fyrr segir nú verið slitið.
Hvað tekur við?
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að bankinn telji nú „fullreynt“ að rekin verði kísilverksmiðja í Helguvík. Haldið verður áfram að reyna að selja innviðina en þá til flutnings eða til aðila sem finna mun henni nýtt hlutverk og að þar verði annars konar starfsemi en kísilframleiðsla. Í tilkynningu bankans sagði að viðræður væru þegar hafnar við nokkra aðila, innlenda og erlenda, í þessu sambandi.
En í hvaða geirum eru þessir aðilar sem verið er að ræða við og vilja finna innviðunum í Helguvík nýtt hlutverk? Annars konar málmbræðslu? Eða einhverju allt öðru?
„Þær viðræður eru í raun ekki komnar á þann stað að það sé tímabært að ræða hvers eðlis sú starfsemi gæti verið,” segir Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka.