Orkuskiptin eru „heldur betur“ lykilmálefni í að leysa loftslagsmálin en þau eru ekki auðvelt viðfangsefni. Til að þau verði að veruleika þarf fjármagn, innviði og „það þarf líka að vera orka til staðar í orkuskipti,“ sagði Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri á loftslagsdeginum, stórri ráðstefnu á vegum Umhverfisstofnunar, sem fram fór í Hörpu í dag. „Orkan þarf að rata í orkuskiptin.“
Og þá er komið að einu lykilmáli, að sögn Höllu Hrundar: „Við þurfum að horfa á það að þó að orkuskipti séu lykilmarkmið stjórnvalda, þá er ekki sjálfgefið að orka, sama hvort að er úr núverandi framleiðslu eða framtíðarvirkjanakostum, rati sjálfkrafa í orkuskiptaverkefnin.“
Það er vegna þess, benti Halla á, að það er svo mikil samkeppni um orkuna. „Það eru svo margir leikendur sem vilja kaupa orku, græna orku, þetta er eftirsótt vara. Og vegna þess að orkan er seld á markaði, þá þarf að skapa sérstaka lagaramma og hvata til þess að orkan rati í orkuskiptin – ef við ætlum að komast sem hraðast í mark og ná að leysa þann þátt loftslagsmálanna sem orkumálin eru hluti af.“
Halla sagði einnig að gera mætti ráð fyrir því að með síhækkandi orkuverði i Evrópu, m.a. vegna innrásarinnar í Úkraínu, muni eftirspurn eftir orkunni okkar halda áfram að vaxa. „Stundum hefur verið sagt að það sé nóg að auka orkuframboð ótakmarkað til að leysa þennan vanda. En þótt slíkt hljómi kannski vel á blaði þá þurfum við að horfa til þess, í raunheimum, að þó að orkan okkar sé endurnýjanleg að þá er hún ekki óendanleg. Græna orkan er verðmæt takmörkuð auðlind, hún er olía okkar tíma, sem við verðum að vanda okkur með, og verðum að horfa á í samhengi við lykilmálefni eins og orkuskiptin.“
Umræða um orkuskipti umlykur orðið allt og er sett á oddinn í stefnu stjórnvalda til að leysa loftslagsvandann. Að skipta út jarðefnaeldsneyti í staðinn fyrir rafmagn, metan eða rafeldsneyti, er markmið sem sett hefur verið fram af ástæðu. Olía sem notuð er á bíla- og fiskiskipaflotann brennur og myndar þannig koltvísýring (CO2), lofttegund sem safnast upp í lofthjúpnum og hefur áhrif á loftslag.
Og olíunotkun Íslendinga er mikil. Hún var um fimmtán prósent af allri frumorkunotkun okkar árið 2019, líkt og Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson, verkefnastjóri í orkuskiptum hjá Orkustofnun, kom inn á í sínu erindi á loftslagsdeginum. Fimmtán prósent lítur kannski út fyrir að vera frekar lág tala, sagði Jón Ásgeir, en til að skilja umfangið þá þurfi að setja það í samhengi við eitthvað sem við þekkjum og skiljum.
Og þá er upplagt að nota Laugardalslaugina til samanburðar. Sundlaug sem margir Íslendingar þekkja vel. „Aðallaug Laugardalslaugar er ein milljón lítrar,“ sagði Jón Ásgeir. Þetta er 50 metra löng laug, 22 metrar á breidd. „Það þarf því 390 sundlaugar til að taka eldsneytisnotkun bifreiða árið 2019 – á einu ári.“
Hægt hefði verið að fylla Laugardalslaugina tæplega 400 sinnum með allri þeirri olíu og bensíni sem við notuðum þetta ár.
Jón Ásgeir lét ekki staðar numið við þennan samanburð og tók fleiri dæmi. Loftslagsdagurinn fór fram í Norðurljósasal Hörpu. „Það þarf eina Laugardalslaug til að fylla þetta rými upp í tvo metra,“ sagði hann ofan af sviðinu í salnum og leit yfir áhorfendur. „Það þyrfti því fimm sundlaugar til að fylla rýmið upp í topp. Þannig að við þyrftum að fylla þetta rými, allan salinn, 77 sinnum til að eiga fyrir eldsneytisnotkun bifreiða á einu ári.“ Fiskiskipaflotinn þyrfti svo 37 Norðurljósasali og flugið 78. Þá eru ótaldir aðrir minni flokkar sem nota jarðefnaeldsneyti.
Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðstjóri orkuskipta og loftslagsmála hjá Orkustofnun, sagði að það áhugaverða við þau markmið í orkuskiptum og samdrætti í losun sem sett hefðu verið væri að þau væru tæknilega möguleg. „Og hagkvæm,“ bætti hann við. „Þannig að það verður algjörlega okkur að kenna ef við klúðrum Parísarsamkomulaginu.“
Erindi Sigurðar Inga hét „Orkuskipti á mannamáli“ og stóð það undir nafni enda Sigurður beittur og hnitmiðaður í orðum sínum. Hann sagðist vera búinn að tala um orkuskipti í fimmtán ár en að nú fyrst væri fólk farið að sperra eyrun. Gjaldeyrissparnaður, minni mengun, minni hávaði, bætt nýting raforkukerfis og rekstrarsparnaður. Allt þetta er ávinningur orkuskipta í bílum okkar. „Þetta er allt samfélagsávinningur og þess vegna er svo fyndið, finnst mér alla vega, þegar menn eru að tala um ívilnanir og svoleiðis og sjá fyrir sér að eyða þurfi peningum í þetta. En þetta er algjör fjárfesting. Bein og skynsamleg fjárfesting.“
Sigurður Ingi sagði málið þó ekki aðeins snúast um rafbíla. Þeir leysi ekki örtröðina á götunum. „Við verðum líka að breyta ferðavenjum,“ sagði hann, „og það hratt.“
Hann sagði bíla mjög heilaga í hugum Íslendinga. „Eins og maðurinn sagði: Ég á þrjú börn. Erlu, Gunnar og Skoda Octavia.“
Málið snúist þó ekki um bíllausan lífsstíl fyrir alla heldur að fækka eknum kílómetrum. Benti hann á appið Korter „sem sýnir okkur hvað við erum ofboðslega vitlaus að nota bílinn.“ Í appinu er hægt að sjá hversu langan tíma tekur að ganga eða hjóla til næsta áfangastaðar.
Einfalt væri að kenna grunnskólabörnum á strætókerfið og verkefni er nú hafið á Akureyri sem gengur út á einmitt það. Þetta verkefni mætti taka upp á höfuðborgarsvæðinu því það væri „eitthvað bilað við það að útskrifa börn úr grunnskóla sem hafa aldrei stigið inn í strætó. Og á sama tíma að segja þeim að hætta að nota bíl.“