„Við þurfum að bregðast við núna,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, á ráðstefnu um loftslagsmál og sjálfbæra orkunýtingu sem fram fór í Washington-borg í síðustu viku. Sendiráð Íslands í borginni, Grænvangur og hugveitan Atlantic Council Global Engery Center stóðu fyrir viðburðinum. Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sóttu ráðstefnuna auk ýmissa úr orku- og loftslagsgeirunum. „Áhrif loftslagsbreytinga eru að stigmagnast um heiminn,“ sagði Halla Hrund í erindi sínu. „Við fáum sífellt fleiri viðvaranir en samt þá erum við ekki að hlusta nægilega vel eða ekki að bregðast nógu hratt við.“
Hún sagði ástandið alvarlegt. Losun gróðurhúsalofttegunda hafi aldrei í sögunni verið jafnmikil og á síðasta ári. Aukin kolanotkun sé þar helsti drifkrafturinn. „Og það eru fleiri dökk ský við sjóndeildarhringinn,“ benti hún á. „Við heyrum nú oft um orkukrísuna í Evrópu og í ljósi nýjustu yfirlýsinga Pútíns [Rússlandsforseta] þá virðast horfurnar ekki hafa batnað.“
Orkukreppan væri söguleg og hefði þegar ýtt Evrópuríkjum út í að nota meira af jarðefnaeldsneyti á ný. Í Þýskalandi, tók hún sem dæmi, væri nú verið að nota 30 prósent meira af kolum til rafmagnsframleiðslu samanborið við árið í fyrra. Ástandið vari vonandi aðeins til skemmri tíma.
Umskipti Evrópu í endurnýjanlega orkugjafa er að sögn Höllu Hrundar risastór innviðavandi. Tíma taki að byggja upp nýja innviði og það séu fjárfrek verkefni. Á sama tíma og öll heimsbyggðin þurfi á gríðarlegum fjárfestingum í loftslagslausnum að halda sé fjármögnunin hins vegar orðin erfiðari og kostnaðarsamari. Efasemdir séu þegar farnar að vakna um að það takist að uppfylla markmið sem þjóðir hafi skuldbundið sig til á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna. „En ef við getum ekki staðið við þau markmið þá erum við að senda röng skilaboð og stíga skref aftur á bak.“
Jákvæð teikn sjást á lofti
En þrátt fyrir þessi dökku ský þá er ýmisleg jákvæð teikn einnig innan seilingar, sagði Halla Hrund. Hún taldi svo upp nokkur atriði sem hún sagði gera það að verkum að hún færi spennt til vinnu á hverjum morgni og tilbúin að leggja sig alla fram. Loftslagsstefna stjórnvalda í Bandaríkjunum, sem tekist hefði að samþykkja með málamiðlunum, væri mikilvæg og sannaði að opinber stefnumörkun, þar sem línur eru lagðar, skipti máli og hafi áhrif. Með þeim hætti geti hið opinbera og einkageirinn gengið í takt. „Þörf er á sterkri opinberri stefnu og djörfum ákv í þessu sambandi um allan heim.“
Framtíðarsýn Evrópusambandsins í orkumálum veki einnig bjartsýni þrátt fyrir að nú geisi þar orkukrísa. Hún felst m.a. í uppbyggingu endurnýjanlegra orkugjafa en einnig í orkusparnaði.
Íslendingar hafa lært að „sóa aldrei góðri orkukrísu,“ sagði Halla Hrund og uppskar hlátur áheyrenda. Þar átti hún við olíukreppur eftir seinna stríð og aftur á áttunda áratug síðustu aldar. Þá hafi Íslendingar orðið að finna innlendar lausnir í stað olíunotkunar. Ennþá sé íslenska þjóðin að njóta góðs af ákvörðunum sem þá voru teknar í innviðauppbyggingunni.
Samgöngur eru það sem við þurfum að einbeita okkur að núna, sagði hún. Við höfum enga afsökun á þeim sviðum þar sem tæknin er þegar til staðar, svo sem hvað varðar rafbíla. „Við skulum gleyma því að vera í öðru sæti [í rafbílavæðingunni] á eftir Noregi – við skulum brúa bilið.“
Eftirlætis hluti Höllu Hrundar á sögunni um innviðauppbyggingu í orkumálum á Íslandi sögunnar er hlutur frumkvöðlanna sem varðað hafa þá leið. Allt frá sögunni um hvernig bóndi fann lausn á því að tengja heita vatnslind sína við nágrannabæinn til sögunnar „rokkstjörnunnar“ Carbfix, sem nýtir alíslenska tækni við förgun á kolefni.
„Það sem mun koma okkur á leiðarenda og út úr þessu hættuástandi er heitstrenging þess að vinna saman,“ sagði Halla Hrund. Að deila reynslunni allri og þekkingunni. „Við höfum talað mikið um hvernig við getum unnið saman til að ná markmiðum okkar. En ég held að það sé annar ónýttur möguleiki. Að líta til allra fjölþjóðlegu stofnananna sem Ísland og Bandaríkin eiga aðild að og segja: Hvernig getum við tryggt að fjármagn og önnur bjarggáð frá þessum stofnunum renni til þróunarlanda þar sem verður gríðarleg þörf fyrir fjárfestingu einkaaðila? Þar sem við blasir áhætta sem aðeins er hægt að takast á við með alþjóðlegri samvinnu. Við skulum koma hlutunum í verk heima fyrir en einnig vinna saman að því að hafa áhrif um allan heim – í samvinnu bæði hins opinbera og einkageirans.“
Ræðu Höllu Hrundar, sem hún flutti á ensku, má sjá hér að neðan á samt öllum öðrum erindum sem flutt voru á ráðstefnunni.