Samningar hafa tekist milli Veitna ohf., dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, og Frumherja um að Veitur eignist á ný mæla fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn á þjónustusvæði sínu. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.
Frumherji keypti allt mælasafnið eftir útboð árið 2001, segir í tilkynningunni. Íslandsbanki er stærsti eigandi Frumherja, með um 80 prósent hlut, en fyrirtækið er í söluferli.
Mælarnir eru um 150 þúsund talsins og er kaupverðið tæplega 1,6 milljarður króna. Á árinu 2014 greiddi OR 395 milljónir króna fyrir leigu og rekstur rennslis- og orkumælanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur.
Það var í desember 2014 að OR kynnti þá ákvörðun að taka á ný við mælum fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn hjá viðskiptavinum á þjónustusvæði sínu. „OR og forverar fyrirtækisins sáu fyrr á árum um mælana eða til 2001 þegar Frumherji hf. keypti þá í kjölfar útboðs og leigði OR til afnota. Frumherji hefur síðan átt og rekið mælasafnið. Annar samningur OR og Frumherja var gerður eftir útboð árið 2007. Hann rann út í maí 2014 og var þá framlengdur til eins árs eða til maíloka 2015. Ekki voru frekari möguleikar á framlengingu í samningnum,“ segir í tilkynningu.
Með samningi um kaup á þeim mælum sem nú eru í notkun flyst eignarhaldið til Veitna, dótturfélags OR sem var stofnað við uppskiptingu OR í ársbyrjun 2014 og sér um allan hefðbundinn veiturekstur. Lögum samkvæmt eru notkunarmælingar á ábyrgð veitufyrirtækis.
Á árinu 2014 greiddi Orkuveitan tæplega 400 milljónir króna fyrir leigu og rekstur rennslis- og orkumælanna.
Ákvörðunin um að taka við mælasafninu á ný er einkum byggð á því að:
Helstu forsendur sem nefndar eru fyrir viðskiptunum, á vef Orkuveitu Reykjavíkur, eru eftirfarandi.
· Mælarnir eru hluti af dreifikerfinu sem er kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Megininntak í stefnuyfirlýsingu OR og eigenda hennar er einmitt að hlúa beri sem mest og best að kjarnastarfseminni.
· Ör tækniþróun er á sviði mælabúnaðar og fyrirtækið þarf að stýra þeirri uppbyggingu og þróun án milliliða milli fyrirtækisins og viðskiptavina.
· OR hefur góða fjárhagslega burði til að taka mælana í hús til sín, enda hefur viðsnúningur í rekstri hennar tekist betur en áætlað var. Til lengri tíma stuðlar ákvörðunin svo að hagræðingu og sparnaði í rekstri, viðskiptavinum til hagsbóta.
· Óheppilegt getur verið að veiturnar sjálfar eigi ekki mælitækin sem mæla grunn tekjustreymis hennar.
· Viðskiptasambandið við þá sem fyrirtækið þjónar verður milliliðalaust. Jafnframt sæta mælarnir óháðu eftirliti samkvæmt lögum.
Verð á rafmagni og vatni breytist ekki vegna þessa, segir í tilkynningunni.