Örplast hefur fundist í svína- og nautakjöti í fyrsta sinn sem og í blóði nautgripa og svína á búum. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna við Vrije-háskóla í Amsterdam. Þeir fundu plastagnir í meirihluta sýna sem þeir tóku úr bæði kjöti og mjólkurvörum og í hverju blóðsýni sem þeir tóku af lifandi dýrum á búum.
Örplast fannst einnig í öllum sýnum sem tekin voru úr fóðri dýranna sem þykir benda til þess hvernig agnirnar komast í dýrin. Afurðunum, kjötinu og mjólkurvörunum, var svo einnig pakkað í plast sem gæti verið önnur leið.
Þetta eru sömu vísindamenn og greindu frá því í mars að örplast hefði fundist í mannablóði. Við rannsóknina á dýrunum og kjötinu notuðu þeir sömu aðferðir. Þeir segja að þegar örplast komist inn í líkama manna og dýra berist það með blóðrásinni til líffæra þar sem það geti safnast upp.
Fjallað er um rannsóknina í breska blaðinu The Guardian og þar segir að enn sé ekki vitað með vissu hver áhrif örplasts séu á heilsu manna og dýra. Hins vegar hafi rannsóknir á rannsóknarstofum sýnt að örplast geti farið inn í frumur. Þá benda þeir jafnframt á að vitað er að aðrar smáar agnir á borð við svifryk geti haft mikil heilsufarsvandamál og valdi dauða milljóna manna á hverju ári.
Örplast um alla jörð
Örplast hefur fundist um alla jörðina, allt frá tindi Everest til heimskautasvæðanna beggja. Einnig hefur það fundist á dýpstu hafsbotnum.
Áður hafði verið sýnt fram á að fólk innbyrðir örplast með mat og drykkjarvatni. Þá hefur einnig verið sýnt fram á að við öndum örplasti í andrúmsloftinu að okkur.
Rannsókn hollensku vísindamannanna er aðeins byrjunin á frekari rannsóknum, bæði þar í landi og víðar um heim. Í þessari einstöku tilraun voru aðeins tekin tólf blóðsýni úr nautgripum og jafnmörg úr svínum. Í öllum sýnunum fannst örplast. Tekin voru 25 sýni úr mjólkurvörum, úr mjólkurfernum í búðum sem og úr mjólkurgeymum á mjólkurbúum. Í átján sýnum fannst örplast.
Örplast greindist svo í sjö af þeim átta sýnum af nautakjöti sem voru rannsökuð og í fimm af átta sýnum úr svínakjöti.
Hvað er örplast?
Örplast er plastögn sem er minni en 5 millimetrar. Í sumum tilvikum er framleitt sérstakt örplast sem sett er í dekk, snyrtivörur og áburð. Í öðrum tilvikum verður til örplast þegar stærri hlutir úr plasti brotna niður í smáar agnir, jafnvel örsmáar nanóagnir.