Hópur manna óskar eftir því að borgarstjórn skipi teymi sérfræðinga til rannsaka starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins og afleiðinga hennar í víðum skilningi. Skoða þurfi „af hverju mannskemmandi uppeldisstefna varð fyrir valinu og við lýði eftir að skaðsemi hennar var ljós“.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá hópnum, en hann skipa Árni H. Kristjánsson, Fjölnir Geir Bragason, Hrafn Jökulsson, Tómas V. Albertsson og Viðar Eggertsson. Allir voru þeir vistaðir á vöggustofum og flestir á fleiri opinberum uppeldisstofnunum.
Munu þeir eiga fund með með borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, miðvikudaginn næstkomandi á skrifstofu borgarstjóra í Ráðhúsi Reykjavíkur og ræða málið við hann.
Mikilvægt að viðurkenna að vistun barna hafi ollið þeim tjóni
Þeir vilja að kannað verði hversu mörg börn voru vistuð á vöggustofunum á starfstíma þeirra; hvernig þeim heilsaðist eftir vistina og hvernig þeim gekk að fóta sig í lífinu.
„Þetta er afar brýnt atriði því nú þegar liggja fyrir vitnisburðir skjólstæðinga vöggustofanna um slæma andlega heilsu og erfiðleika á lífsleiðinni. Það er mikilvægt fyrir eftirlifandi börn að viðurkennt sé að vistun þeirra á vöggustofum borgarinnar olli þeim tjóni. Einnig er brýnt að rannsaka hvernig börnum var ráðstafað í fóstur eða til ættleiðinga, forsendur, fjölda þeirra og afdrif,“ segir í yfirlýsingunni.
Málið liggur enn í þagnargildi
Þá kemur fram að Vöggustofan að Hlíðarenda og Vöggustofa Thorvaldsensfélagsins hafi verið reknar af Reykjavíkurborg sem bar ábyrgð á starfseminni. Ljóst sé að meðferð á börnum sem vistuð voru á stofnununum olli þeim og fjölskyldum þeirra mismiklum skaða.
„Dr. Sigurjón Björnsson sýndi fram á að oft var skaði barnanna varanlegur vegna þess rofs sem var tilfinningalegum þroska þeirra. Þrátt fyrir háværa gagnrýni á starfsháttunum þá brást borgarstjórn lítt eða ekkert við. Löngu síðar eða árið 1993 komst starfsemi vöggustofa aftur í hámæli í kjölfar frumflutnings útvarpsþáttar Viðars Eggertssonar, „Eins og dýr í búri“. Þátturinn hefur verið endurfluttur nokkrum sinnum og jafnan vakið athygli. Það hefur þó ekki orðið til þess að hreyfa við borgarstjórn og málið liggur því enn í þagnargildi á þeim vettvangi,“ segir í yfirlýsingunni.
Benda þeir á að dæmi séu um að fóstur og ættleiðingar barna frá vöggustofunum hafi verið á vafasömum forsendum. Það hafi verið á almannavitorði að þangað skyldu barnlaus hjón leita eftir börnum. Enn fremur hafi mæður barnanna yfirleitt verið í erfiðri félagslegri stöðu, eins og ungar einstæðar mæður eða einfaldlega fátækar. Auk þess hafi þessar mæður átt það sammerkt að hafa veikt bakland. Því hafi þær brotnað undan þrýstingi félagsmálayfirvalda og afsalað sér börnum sínum.