Jákvæðri þróun á þjónustujöfnuði má þakka þeim gríðarlegu umsvifum sem hafa verið í ferðaþjónustu undanfarið. Árið 2014 var gjöfulasta ferðamannaár frá upphafi, tekjur þjóðarbúsins af erlendum ferðamönnum í fyrra námu 302,7 milljörðum króna og árið í ár fer af stað með miklum látum. Aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim í janúarmánuði og nemur aukningin frá fyrra ári heilum 35 prósentum.
Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um þjónustujöfnuð síðasta árs. Rýnt er í nýútgefnar bráðabirgðatölur Hagstofunnar og segir í greiningunni að útflutningur á þjónustu hafi skilað meiru inn í þjóðarbúið en nokkru sinni áður. Það megi rekja til ferðaþjónustunnar, sem er orðin stærsta útflutningsgreinin.
Fluttum meira inn
Verðmæti útflutttrar þjónustu nam alls 499,2 milljörðum króna á árinu 2014. Innflutt þjónusta nam 360,4 milljörðum króna og afgangur af þjónustuviðskiptum var því jákvæður um 138,8 milljarða. Afgangurinn minnkaði um sjö milljarða frá árinu 2013 þar sem innflutningur jókst töluvert.
Met var aftur á móti sett í útflutningi. Afgangur vegna ferðalaga nam 44,8 milljörðum króna samanborið við 28,1 milljarð árið áður en sá liður nær yfir útgjöld ferðamanna á áfangastað, eins og gistingu, veitingaþjónustu og fleira. Liðurinn Samgöngur og flutningar, sem einnig heyrir að stórum hluta undir ferðaþjónustu, skilaði afgangi upp á 129,3 milljarða króna.