Breskir læknar segja tilefni til þess að hafa sérstakar áhyggjur af hitnandi veðri á heilsu fólks og vara við því að líklegt sé að tilfellum húðkrabbameins, svo sem sortuæxla, muni fara fjölgandi á næstu árum vegna hækkandi hitastigs í tenglsum við loftslagsbreytingar.
Hitabylgjur hafa plagað Evrópubúa í sumar og fjöldi hitameta hefur fallið. Í Bretlandi fór hiti yfir 40,2 stig í júlí og segja sérfræðingar að ekki sé um einstakan viðburð að ræða heldur sé þetta það sem koma skal. Með hækkandi hita breytast venjur fólks og það ver meiri tíma úti við, að því er Guardian hefur eftir heilbrigðissérfræðingum. Þetta getur leitt til þess að tilfellum sortuæxla, alvarlegustu gerðar húðkrabbameins, fari fjölgandi.
Sortuæxli myndast þegar fólk verður fyrir sólbruna og raunar þrefaldast líkurnar á að fólk þrói með sér húðkrabbamein við það eitt að sólbrenna á tveggja ára fresti. Í Bretlandi hafa dauðsföll vegna sortuæxla meðal karla þrefaldast síðan 1970. Aukning hefur einnig mælst meðal kvenna. Samkvæmt upplýsingum á vef Krabbameinsfélags Íslands var meðalfjöldi látinna af völdum sortuæxlis í húð 7 karla og 5 konur á ári á árunum 2016 til 2020.
Samkvæmt sérfræðingi sem Guardian ræddi við er það ekki hitinn sem veldur aukinni hættu á krabbameini heldur breytt hegðun fólks vegna hækkandi hitastigs. Fólk sé líklegra til þess að eyða meiri tíma utandyra þegar hlýrra er, og ekki bara á sumrin, sem verði til þess að fólk verði fyrir meiri útfjólubláum geyslum árið um kring, en sólin er almennt nógu sterk til þess að brenna frá mars og fram í október ár hvert.
Til þess að forðast auknar líkur á húðkrabbameini samhliða hlýnandi veðri er mælt með því að halda sig frá sólinni á milli klukkan 11 og 15, halda sig í skugga og verja sig frá sólinni með höttum, fatnaði, auk þess að nota sólarvörn og bera hana á sig reglulega yfir daginn. Sortuæxli geta verið lífshættuleg sé ekki gripið inn í á fyrstu stigum þess og því er einkar mikilvægt að leita læknis um leið og grunur kemur upp um slíkt.