Skemmtilegt að heyra af því að hjónin Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur bruggverksmiðjunnar Kalda á Árskógssandi í Eyjarði, ætli að færa út kvíarnar með því að koma upp 350 til 400 fermetra bjálkahúsi undir bjórböð sem fólk getur notið góðs af. Vafalítið verða þau vinsæl.
Agnes og Ólafur Þröstur eru dæmi um frumkvöðla sem hafa kjark og þor til þess að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd og vanda til verka um leið. Viðtökurnar sem varan þeirra, Kaldi, hefur fengið hjá Íslendingum hafa verið góðar, og hafa þau hjónin lagt mikið upp úr því að taka á móti fólki í bruggverksmiðjunni á Árskógssandi og þannig lagt ferðaþjónustunni á svæðinu lið. Þúsundir manna heimsækja bruggverksmiðjuna á hverju ári, og því má segja að það sé rökrétt framhald hjá þeim að bjóða upp á enn meiri þjónustu.
Frumkvöðlastarfsemi eins og þessi er aðdáunarverð og mikilvæg. Því fleiri sem hafa getu, þor og kjark til að fara út í einkarekstur sem skapar störf og virðisauka, því betra!