Búist er við suðaustan stormi, meðalvind meiri en tuttugu metra á sekúndu (m/s), eftir hádegi á morgun. Búist er við suðvestan stormi annað kvöld og sums staðar ofsaveðri um landið Vestan- og Norðanvert, það er meðalvindur verði meiri en 28 m/s. Veðurstofa Íslands varar sérstaklega við veðrinu á vef sínum. „Spáð er illviðri eftir hádegi á sunnudaginn og fram á mánudag og engu ferðaveðri,“ segir í tilkynningu frá veðurfræðingum Veðurstofu Íslands.
Búast má við hættulegum vindhviðum við fjöll eftir hádegi á morgun (jafnvel yfir 50 m/s þegar verst lætur) og engu ferðaveðri.
Á morgun er útlit fyrir vaxandi suðaustanátt, meðalvindhraði víða á bilinu 18-25 m/s eftir hádegið. Vindhviður geta náð yfir 40 m/s vestan og norðan undir fjöllum á Vesturlandi, til dæmis undir Hafnarfjalli. Suðaustanáttinni fylgir rigning og er útlit fyrir talsvert eða mikið úrkomumagn á suðurhelmingi landsins.
Nær hámarki annað kvöld
Um klukkan níu annað kvöld er útlit fyrir að veðrið nái hámarki suðvestanlands með suðvestan 20-30 m/s, samkvæmt upplýsingum frá Veðstofu Íslands. Uppúr miðnætti færir þessi veðurhæð sig yfir á Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra og einnig á Norðurland eystra.