Óvissa er um launaþróun og því er erfiðara að meta verðbólguhorfur. Meðal annars þess vegna er stýrivöxtum haldið óbreyttum. Önnur óvissa í hagkerfinu í augnablikinu er hvernig staðið verður að rýmkun eða afnámi fjármagnshafta, en unnið er „baki brotnu“ að því að einangra vandamál sem þarf að leysa, meðal annars sem snúa að slitabúum föllnu bankanna. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands í morgun.
Stýrivöxtum var haldið óbreyttum, en meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5%.
Í máli Arnórs Sighvatssonar, aðstoðarseðlabankastjóra, kom fram fram að vandinn sem snéti að slitabúunum væri leysanlegur og þá væri skilyrði til rýmkunar eða afnáms hafta, bæði ytri og innri skilyrði í hagkerfinu, góð í augnablikinu. „Það er ekki hægt að losa höftin án þess að taka áhættu sem flestir telja að sé ekki ásættanleg. En vandinn er leysanlegur og ef lausnin finnst er hægt að aflétta höftunum tiltölulega hratt,“ sagði Arnór.
Hagvöxtur mældist 1,9 prósent í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Már sagði á fundinum í morgun, að hagvaxtartölurnar ættu það til að endurskoðast „upp á við“, einkum þegar kæmi að fjárfestingu. En þessar tölur Hagstofu Íslands voru í takt við spá Seðlabanka Íslands frá því í febrúar, og einnig í takt við efasemdaraddir sem komu frá seðlabankanum, í desember í fyrra, þegar Hagstofa Íslands birti hagvaxtartölur sem sýndu 0,5 prósent hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra. Þær tölur hafa nú verið endurskoðaðar og reyndist hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins vera 1,5 prósent.