Ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að tilkynna Evrópusambandinu að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki að sambandinu hefur vart farið fram hjá neinum. Mikið er rætt um hvort það standist að taka svona ákvörðun án þess að fara með hana í gegnum Alþingi og án samráðs við utanríkismálanefnd, sem lög segja að verði að vera með í ráðum þegar meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál Íslands eru teknar.
Minna hefur verið fjallað um hvaða áhrif þessi ákvörðun mun hafa á samstarf Íslands við Evrópusambandið. Það samstarf er nefnilega afar náið í gegnum EES-samninginn og staða þess nokkuð viðkvæm þar sem ekki hefur samist um greiðslur Íslands í Þróunarsjóð EFTA, sem oft er kallaður aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópu. Síðasta samkomulag um greiðslur rann út fyrir um ári og mjög langt virðist vera á milli þess sem Ísland, Noregur og Liecthenstein eru tilbúin að borga í sjóðinn og það sem Evrópusambandið vill að ríkin þrjú greiði.
Það ætti þó ekki að vera vandkvæðum bundið fyrir Gunnar Braga að fá helstu sérfræðinga Íslands í Evrópumálum til að teikna upp fyrir sig möguleg viðbrögð Evrópusambandsins. Þeir vinna flestir í ráðuneyti hans. Þeirra helstur er ráðuneytisstjórinn Stefán Haukur Jóhannesson. Hann var enda á sínum tíma aðalsamningamaður og formaður samninganefndar Íslands í viðræðum við Evrópusambandið.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.