Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Á morgun fer fram stofnfundur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á Hilton hótel Nordica. Þessi fundur er upphafið að endalokum LÍÚ, Landssambandi íslenskra útgvegsmanna. LÍÚ var orðið að hugarfóstri neikvæðni sem "brand" eða vörumerki. Um leið og LÍÚ ber á góma, þá verður allt brjálað! Ýmist með réttu eða röngu, allt eftir því hvernig á það er lítið. Þessi stofnfundur ætti að gefa sjávarútvegnum tækifæri á því að bera höfuðið hátt, og gefa öllum hliðum þessarar stoðatvinnuvegar landsins tækifæri á því að blómstra og hafa áhrif. Útgerðarfyrirtækin eru í raun bara lítill hluti af stórri heild sjávarútvegsins á Íslandi. Kjarninn hefur ítrekað heyrt áhyggjuraddir um eitt atriði sem snýr að íslenskum sjávarútvegi; það er markaðssetning á erlendum vettvangi. Helst þarf að fara út í umfangsmikla og stóra langtíma herferð þar sem einkaaðilar og hið opinbera sameina krafta sína. Stjórnvöld studdu dyggilega við bakið á ferðaþjónustunni með 700 milljóna herferð undir merkjum Inspired by Iceland. Það er fullt tilefni til þess að fara út í viðlíka herferð fyrir íslenskan sjávarútveg, og vel mögulegt að ná enn meiri árangri. Þjóðarbúið græðir á því, ef vel er á spöðunum haldið.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.