Unglingsstúlka frá Palestínu, sem hefur vakið mikla athygli eftir að hún brast í grát í umræðum við Angelu Merkel Þýskalandskanslara, fær að vera áfram í Þýskalandi. Talsmaður borgarstjórans í Rostock, þar sem hún býr, segir að engin áform séu uppi um að senda stúlkuna og fjölskyldu hennar úr landi.
Myndband af samskiptum stúlkunnar, sem heitir Reem, við Merkel hefur farið sem eldur í sinu um internetið síðustu daga. Þau áttu sér stað í sjónvarpsþætti þar sem rætt var um Þýskaland, og stúlkan sagði Merkel frá því að hún og fjölskylda hennar hefðu komið til Rostock í Þýskalandi fyrir fjórum árum úr flóttamannabúðum í Líbanon. Hún talaði um skólafélaga sína og sagði við kanslarann „ég hef markmið eins og allir aðrir. Mig langar að læra eins og þau...það er mjög óþægilegt að sjá hvernig aðrir fá að njóta lífsins, en ég get það ekki.“
Merkel svaraði Reem og sagðist skilja stöðu hennar, en að stjórnmál væru stundum erfið. Það væru þúsundir á þúsundir ofan í palestínskum flóttamannabúðum í Líbanon og það væri ekki hægt að leyfa öllum að koma.
Reem brast í grát á meðan Merkel var að tala, sem varð til þess að kanslarinn fór til hennar og strauk henni og reyndi að hugga hana.
Þjóðverjar tóku á móti 200 þúsund hælisleitendum í fyrra og búist er við allt að 450 þúsundum á þessu ári.