Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að það fyrsta sem hún myndi gera kæmist hún í meirihluta væri að reyna að leysa þann vanda sem sé uppi í leikskólamálum í borginni.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í máli Hildar í nýjum kosningaþætti Kjarnans, Með orðum oddvitanna, þar sem Eyrún Magnúsdóttir ræðir við alla oddvita þeirra ellefu framboða sem bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 14. maí næstkomandi.
Segir þverpólitíska sátt um að bæta almenningssamgöngur
Aðspurð hvort hún styðji Borgarlínu segir Hildur að það verkefni hafi að einhverju leyti orðið samheiti yfir bættar almenningssamgöngur. Hún segist telja að allir vilji fleiri forgangsakgreinar, tíðari ferðir og betri biðskýli. „Það merkilega er að það er held ég þverpólitísk sátt í öllum flokkum um að bæta almenningssamgöngur í Reykjavík.“
„Svolitlir strákastælar“
Í húsnæðismálum segir Hildur að henni finnst stóryrt loforð um tvö til þrjú þúsund íbúða uppbyggingu á ári, sem hafa heyrst frá Samfylkingunni og Framsóknarflokknum, vera „svolitlir strákastælar“. Í stað þess að festar í fjölda íbúða tali hún fyrir raunhæfum svæðum þar sem hægt sé að byrja að byggja strax.
Hildur segir að það sé skynsamlegt að þétta byggð og fyrir hægra fólk eins og hana sé það raunar tónlist í þeirra eyrum að stefna að slíku. Ákveðins misskilnings gæti hins vegar í umræðunni um þéttingu byggðar í Reykjavík þegar látið sé eins og að einungis ein leið sé fær til þess. „Hvergi í heiminum sjáum við gengið svo langt í þéttingu eins og í Reykjavík. Þetta er ákveðið einsdæmi þetta þéttingarmagn.“
Vilja þétta án þess að ganga á innviði
Því horfi hún og Sjálfstæðisflokkurinn til þess að þétta byggð í hverfum eins og Úlfarsárdal, Staðarhverfi í Grafarvogi og á Kjalarnesi og ráðast í nýja uppbyggingu á Keldnasvæðinu og í Örfirisey.
Þegar hún er spurð að því hvort það felist ekki þversögn í að tala um þéttingu þegar um er að ræða hverfi í útjaðri borgarinnar, en ekki þéttingu inn á við, segir Hildur að það þurfi að passa upp á þéttingin verði ekki það mikil, og gangi það mikið á innviði, að hverfin hætti að ganga upp. Hún nefnir Vesturbæinn og Laugardalinn sem dæmi. „Stór og barnmörg hverfi. Leikskólavandinn er hvergi stærri í allri borginni heldur en nákvæmlega á þessum stöðum. Biðlistar eftir frístund eru hvergi lengri heldur en í nákvæmlega þessum hverfum. Og þetta eru þau tvö hverfi sem búa við hvað verstan kost þegar kemur að íþróttamannvirkjum og aðstöðu fyrir íþróttaiðkun barna. En endalaust er byggt þarna fyrir fjölskyldur og reynt að fjölga íbúum. Ég gleymdi reyndar að nefna að skólarnir eru líka sprungnir.“
Segir sátt þegar hafa náðst
Sjálfstæðisflokkurinn hélt stórt prófkjör í aðdraganda kosninganna þar sem Hildur, sem talin hefur verið til frjálslyndari arms borgarstjórnarflokksins, fékk 49,2 prósent atkvæða í fyrsta sætið. Frambjóðendur með íhaldssamari skoðanir á borgarmálum, sérstaklega þegar kemur að sýn á skipulags- og samgöngumál, raðaði sér í næstu sæti á eftir.
Aðspurð hvort sá hópur geti náð einhverri niðurstöðu um hvernig þessum málum eigi að vera háttað segir Hildur að hún hafi þegar náðst. „Það er sú sýn sem við kynnum í okkar málefnastefnu. Þegar það kemur að samgöngum þá hefur það alltaf verið sýn Sjálfstæðismanna að tryggja frelsi og val og frjálsa valkosti. Við höfum sameinast um þessa kosti sem við kynnum til leiks.“