Penninn og Storytel eru hvor um sig með markaðsráðandi stöðu í smásölu prentaðra bóka og hljóðbóka. Sömuleiðis er Forlagið með langstærstu hlutdeildina á markaði fyrir útgáfu prentaðra bóka, en Storytel gefur út yfirgnæfandi meirihluta allra hljóðbóka. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Samkeppniseftirlitsins um samþjöppun á bókamarkaði, sem birtist á vef stofnunarinnar fyrr í dag.
Tveir mismunandi markaðir
Í úttektinni vísar stofnunin í könnun sem Zenter framkvæmdi í fyrra á því í hvaða aðstæðum fólk læsi prentaðar bækur eða hlustaði á hljóðbækur. Samkvæmt henni eru prentaðar bækur mun vinsælli til gjafa en hljóðbækur, á meðan hljóðbækurnar virðast nýtast við heimilisstörf, á æfingum eða í gönguferðum. Prentaðar bækur eru aftur á móti vinsælli meðal foreldra sem lesa fyrir börnin sín og þegar fólk fer í frí.
Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu leiða þessar niðurstöður í ljós að vísbendingar séu um að hljóðbækur og prentaðar bækur myndi sérstaka markaði, þar sem hljóðbækur séu keyptar í öðrum tilgangi en rafbækur.
Mikil samþjöppun á markaði
Mikil samþjöppun er á markaði fyrir útgáfu bóka ef honum er skipt upp eftir því hvort bækurnar séu á prentuðu eða stafrænu formi. Þannig ber útgáfufélagið Forlagið höfuð og herðar yfir önnur útgáfufélög prentaðra bóka, en fyrirtækið gefur út ríflega þriðju hverja prentaða bók hér á landi. Næst á eftir koma útgáfufélögin Bjartur og Veröld, en markaðshlutdeild þeirra er þó einungis þriðjungur af hlutdeild Forlagsins.
Enn meiri samþjöppun ríkir á markaði yfir smásölu prentaðra bóka, en þar hefur Penninn 50-55 prósenta markaðshlutdeild, sem þýðir að fyrirtækið selji meirihluta allra seldra bóka á prentuðu formi. Næst á eftir koma Hagar með 10-15 prósenta markaðshlutdeild.
Á markaði hljóðbóka hefur Storytel hins vegar algjöra yfirburði, bæði í útgáfu og smásölu bóka. Samkvæmt Samkeppniseftirlitinu gefur Storyside, útgáfufyrirtæki Storytel, út 80-85 prósent allra rafbóka á íslenska markaðnum, auk þess sem fyrirtækið selur 95-100 prósent allra hljóðbóka á íslensku hérlendis.
Eru þetta tveir markaðir?
Samkvæmt Jóni Scheving Thorsteinssyni, sem vann tölfræðilega greiningu á bókamarkaði fyrir Forlagið í fyrra, bendir könnun Zenter aftur á móti til þess að prentaðar bækur og hljóðbækur séu á sama markaðinum. Í grein sem Jón skrifaði í Vísbendingu í byrjun þessa árs segir hann að best væri að skilgreina markaðinn út frá lesendum og hlustendum.
Þar sem meirihluti þeirra sem keyptu hljóðbók höfðu einnig keypt prentaða bók nýlega mætti draga þá ályktun að vörurnar séu að miklu leyti staðkvæmdarvörur og ætti því að skilgreina þær á sama markaði, að mati Jóns.