Alls 23 einstaklingar sækjast eftir því að taka sæti á lista Pírata fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Flokkurinn, sem á tvo borgarfulltrúa í dag og myndar meirihluta ásamt Samfylkingu, Viðreisn og Vinstri grænum, heldur rafrænt prófkjör sem hefst á laugardag, 19. febrúar, og lýkur 26. febrúar.
Framboðsfrestur rann út á þriðjudaginn. Báðir sitjandi borgarfulltrúar flokksins gefa kost á sér til endurkjörs, þær Dóra Björt Guðjónsdóttir og Alexandra Briem. Sú síðarnefnda var varaborgarfulltrúi framan af kjörtímabili, en tók sæti í borgarstjórn er Sigurborg Ósk Haraldsdóttir sagði skilið við borgarmálin og fluttist til Húsavíkur. Alexandra, sem er forseti borgarstjórnar í dag, sækist eftir öðru sætinu í prófkjörinu.
En fleiri eru til kallaðir. Nokkrir frambjóðendur hafa sérstaklega gefið það út í tilkynningum að undanförnu að þau sækist eftir efstu sætunum á lista flokksins. Á meðal þeirra eru Rannveig Ernudóttir og Atli Stefán Yngvason, sem bæði gefa kost á sér til þess að leiða listann. Þá hafa þeir Kristinn Jón Ólafsson og Magnús Davíð Norðdahl einnig boðað að þeir sækist eftir sætum ofarlega á lista.
Óljóst er hvort fleiri af þeim 23 sem bjóða sig fram vilja bítast um efstu sætin á listanum, en í Píratar standa í vikunni fyrir opnum kynningarfundum á netinu þar sem frambjóðendur kynna sig fyrir flokksfólki. Fyrri slíki fundurinn var í gær og sá síðari verður í kvöld.
Skoðanakönnun sýndi Pírata á siglingu í Reykjavík
Nýjasta skoðanakönnunin um fylgi flokka í Reykjavík, sem Maskína framkvæmdi nýlega, sýndi Pírata með tæplega 15 prósenta fylgi, sem myndi skila flokknum fjórum borgarfulltrúum af 23 ef það yrði niðurstaðan í kosningunum í maí.
Samkvæmt reglum prófkjörsins hjá Pírötum er kjörskráin þegar lokuð, en einungis þeir sem voru orðnir félagar Pírata í Reykjavík þann 27. janúar sl. hafa atkvæðisrétt í prófkjörinu.
Samkvæmt svari sem Kjarninn fékk frá flokknum fyrir alþingiskosningarnar síðastliðið haust voru skráðir félagar í flokknum í Reykjavík þá um 1.800 talsins.
Frambjóðendur í prófkjöri Pírata í Reykjavík
- Alexandra Briem
- Vignir Árnason
- Unnar Þór Sæmundsson
- Tinna Helgadóttir
- Sævar Ólafsson
- Stefán Örvar Sigmundsson
- Rannveig Ernudóttir
- Olga Margrét Cilia
- Oktavía Hrund Jóns
- Magnús Davíð Norðdahl
- Kristján Thors
- Kristinn Jón Ólafsson
- Kjartan Jónsson
- Jón Arnar Magnússon
- Huginn Þór Jóhannsson
- Haraldur Tristan Gunnarsson
- Halldor Emiliuson
- Eyþór Möller Árnason
- Elsa Nore
- Elísabet Guðrúnar- og Jónsdóttir
- Dóra Björt Guðjónsdóttir
- Atli Stefán Yngvason
- Alexandra Ford
Fréttin hefur verið uppfærð..