Sjálfstæðisflokkur og Píratar bæta við sig tveimur prósentustigum af fylgi hvor milli mánaða samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 22,8 prósent og er enn undir þeim 24,4 prósentum sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum fyrir rúmu ári síðan. Píratar mælast hins vegar með 14,3 prósent fylgi og langt yfir þeim 8,6 prósentum sem flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í fyrra.
Allir stjórnarflokkarnir þrír hafa tapað fylgi það sem af er kjörtímabilinu. Mest hefur kvarnast úr stuðningi við flokk Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, Vinstri grænna, en einungis 7,7 prósent aðspurðra í könnun Maskínu sögðust myndu kjósa flokkinn í dag. Það er 4,9 prósentustigum minna en í síðustu kosningum. Ef kosið yrði í dag myndu fimm flokkar fá meira fylgi en Vinstri græn.
Framsóknarflokkurinn hefur sömuleiðis verið að dala og mælist nú með 15 prósent fylgi, eða 2,3 prósentustigum minna en þingkosningunum í september 2021.
Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir þrír því tapað 8,9 prósentustigum á rúmu ári og mælast saman með 45,5 prósent fylgi.
Tveir bætt við sig samanlagt tíu prósentustigum
Auk Pírata hefur Samfylkingin bætt miklu fylgi við sig það sem af er kjörtímabili. Flokkurinn fékk 9,9 prósent atkvæða í fyrrahaust en mælist nú með 14,4 prósent fylgi og þriðji stærsti flokkurinn á þingi. Saman nemur fylgisaukning þessara tveggja flokka, sem eru nálægt hvorum öðrum í flestum stefnumálum
Samanlagt hafa þessir þrír flokkar bætt við sig 11,4 prósentustigum á rúmu einu ári og eru með 38,2 prósent stuðning.
Fylgi Flokks fólksins næstum helmingast
Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 6,5 prósent fylgi og leiðir þá deild íslenskra stjórnmála þar sem fylgið mælist oft í námunda við fimm prósentin. Flokkurinn hefur bætt við sig 2,4 prósentustigum á kjörtímabilinu og er sá eini slíkra flokka sem það hefur gert.
Flokkur fólksins náði í 8,8 prósent atkvæða í september í fyrra en fylgið hefur nánast helmingast síðan þá og mælist nú 4,6 prósent. Óvíst er hvort það myndi duga Flokki fólksins inn á þing, en hann mælist nú með minnst fylgi allra þeirra sem nefndir voru í könnun Maskínu.
Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar siglir lygnan sjó með fimm prósent fylgi. Það er svipað og hann hefur verið að mælast með allt kjörtímabilið og 0,4 prósentustigum minna en hann fékk í september í fyrra.
Könnunin fór fram dagana 30. september til 17. október 2022 og voru 1.638 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.