Píratar í Reykjavík kynntu stefnumálin sem flokkurinn hyggst setja á oddinn fyrir komandi borgarstjórnarkosningar á fundi sem haldinn var á Kjarvalsstöðum á Sumardaginn fyrsta, en flokkarnir sem bjóða fram í borginni hafa einn af öðrum verið að setja fram stefnumál sín að undanförnu.
Píratar eru í dag með tvo borgarfulltrúa eftir að hafa fengið 7,7 prósenta fylgi í kosningunum árið 2018. Samkvæmt skoðanakönnunum sem hafa birst að undanförnu er flokkurinn líklegur til að bæta við sig fylgi eftir fjögurra ára setu í meirihluta með Samfylkingu, Viðreisn og Vinstri grænum, en í nýjustu kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar mældist fylgi flokksins 12,8 prósent.
Stefnur Pírata í Reykjavík eru fimm talsins, en flokkurinn er með umhverfis-, skipulags- og samgöngustefu, dýravelferðarstefnu, mannréttinda- og velferðarstefnu, lýðræðis-, menningar- og nýsköpunarstefnu og barnastefnu.
Kjarninn renndi yfir stefnur Pírata í Reykjavík, sem settar eru fram á alls 24 blaðsíðum, og tók saman helstu aðgerðirnar sem flokkurinn segist vilja ráðast í.
Borgarlínu hraðar og færri bílastæði
Í samgöngumálum segjast Píratar vilja hraða uppbyggingu Borgarlínu og tryggja að „ekki verði farið í umferðaraukandi framkvæmdir“. Þá vilja Píratar að mislæg gatnamót verði „gerð víkjandi“ og að kveðið verði á um endurhönnun þeirra fyrir vistvæna ferðamáta.
Einnig segist flokkurinn vilja að við útfærslu stórra stofnvegaframkvæmda, eins og Sundabrautar, verði „brugðist við með mótvægisaðgerðum til að koma í veg fyrir umferðaraukningu, í þágu loftslagsins og mannlífsins í borginni“ en einna efst á blaði í stefnu flokksins er að öll ákvarðanataka eigi að taka mið af markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum.
Flokkurinn vill að skipulag og hraðatakmarkanir á akandi umferð taki mið af því að fækka slysum og auka öryggistilfinningu gangandi og hjólandi. Í því skyni vill flokkurinn að „Reykjavík verði skilgreind sem 50 km hámarkshraðasvæði“ og þróa „bíllausa byggð með frelsi frá bílaeign“. Píratar stefna að því að fækka bílastæðum og koma á gjaldskyldu víðar.
Píratar vilja einnig koma næturstrætó aftur á og bjóða upp á gjaldfrjálsar almenningssamgöngur fyrir börn upp að 18 ára aldri, bæta í fjárfestingu í innviðum fyrir hjólreiðar og gera auknar kröfur um bæði fjölda og gæði hjólastæða.
Í stefnu flokksins segir einnig að draga skuli úr notkun nagladekkja, „svo sem með því að rukka fyrir notkun þeirra og með því að breyta ferðavenjum.“ Píratar vilja stefna að því að takmarka bílaumferð þegar slæm loftgæði ógni heilsu fólks og bjóða ókeypis í almenningssamgöngur á svokölluðum gráum dögum.Flokkurinn segist vilja hraða uppbyggingu húsnæðis í borginni og láta húsnæðisuppbygginguna haldast í hendur við uppbyggingu Borgarlínu, í „þéttri lífsgæðabyggð“. Í kosningabaráttunni tala nokkrir flokkar fyrir því að ráðast í skipulagningu Keldnalands, en í stefnu Pírata segir að ný byggð þar skuli rísa samhliða borgarlínutengingu, „ellegar verði bíllaus“. Flokkurinn vill einnig að Reykjavíkurflugvöllur víki „sem allra fyrst“ svo hægt verði að undirbúa húsnæðisuppbyggingu í Vatnsmýrinni.
Píratar segjast vilja stuðla að uppbyggingu heimavistar fyrir nemendur sem vilja koma til Reykjavíkur að stunda framhaldsskólanám í samstarfi við ríkið. Einnig vill flokkurinn að félagslegum íbúðum verði fjölgað sem hlutfall af heildaruppbyggingu og að unnið verði „í sameiningu að því að öll sveitarfélög axli sinn hluta“.
Sex tíma gjaldfrjáls leikskóli og heimgreiðslur með 12-15 mánaða börnum
Í stefnu Pírata segir að flokkurinn vilji uppfylla þörfina fyrir fjölda leikskólaplássa frá fæðingarorlofi „í nærumhverfi barnsins“. Píratar segjast jafnframt vilja tryggja „jafnt aðgengi að leikskólavistun óháð efnahag“ og skapa hvata til styttri dagvistunar „með 6 tíma gjaldfrjálsum leikskóla.“ Píratar segjast einnig vilja stuðla að „sveigjanleika í töku sumarfrís frá leikskólum“.
Flokkurinn vill einnig að „börn fólks í fátækt fái ókeypis skólamáltíðir“ og tryggja aðgengi að tónlistarnámi óháð efnahag í öllum hverfum borgarinnar. Píratar vilja styðja við aukna notkun Frístundakortsins meðal hópa sem nýta sér það minna en aðrir og skoða að bjóða upp á frístundastyrki fyrir yngri börn, en í dag geta börn á aldrinum 6-18 ára nýtt sér frístundastyrkinn.
Píratar segjast einnig vilja gera tilraunir með „greiðslur til foreldra/forsjáraðila 12-15 mánaða barna sem ekki fá dagvistunarpláss eða velja að öðrum kosti ekki að setja börnin í umönnun utan heimilis“ og safna gögnum um hvernig til tekst.
Ekki kemur fram hversu háar greiðslur Píratar sjá fyrir sér, en hugmyndir í málefnaskrá Sjálfstæðisflokksins um 100 þúsund króna mánaðarlegar greiðslur til foreldra sem kjósa að vera heima með börn sín fram að tveggja ára aldri hafa vakið nokkuð umtal undanfarna daga.
Eins og Píratar stilla því upp í stefnu sinni eiga tilraunir með þetta að nýtast inn í umræðuna um lengingu fæðingarorlofs og tryggja skal að að foreldrar sem í þessu taka fái viðeigandi fræðslu og endurgjöf.
Flokkurinn segist einnig vilja bjóða gjaldfrjálsa móðurmálskennslu barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og bjóða fram jafnréttis-, kyn-, hinsegin- og kynjafræðslu á öllum skólastigum.
Lausagöngusvæði hunda í öllum hverfum
Píratar segjast vilja að Geirsnef í Elliðaárvogi „geti áfram virkað sem hundasvæði“ eftir borgarlínubreytingar, en fyrsti áfangi Borgarlínu á að liggja yfir Geirsnefið úr Vogabyggðinni og upp á Ártúnshöfða. Píratar vilja bjóða upp á lausagöngusvæði fyrir hunda í öllum hverfum og að lögð sé „áhersla á fjölgun slíkra svæða í hverfum áður en breytingar verða á Geirsnefi.“
Í dýravelferðarstefnu flokksins segir einnig að þróa eigi Dýraþjónustu Reykjavíkur áfram og upplýsa borgarbúa um tilvist hennar, tilgang og þjónustu. Einnig segir að styðja skuli við við grasrótarsamtök í dýravelferð og stuðla að samstarfi sveitarfélaga á milli um dýraþjónustu.
Gagnsæi, lýðræði og stafræn stjórnsýsla
Í stefnu Pírata er einnig rætt um að efla gagnsæi í rekstri borgarinnar, meðal annars með áframhaldandi þróun og innleiðingu á Gagnsjá Reykjavíkur og nýrri „styrkjagátt“ sem verði með yfirliti yfir veitta styrki frá borginni og forsendur styrkveitinga.
Píratar segjast svo vilja innleiða lýðræðisstefnu í Reykjavík og nýta stafræna stjórnsýslu í auknum mæli. Flokkurinn talar meðal annars fyrir því að skapa stafrænt innritunarferli í leikskóla og einfalda þjónustu í skipulags- og uppbyggingarmálum.
Kjarninn mun fara yfir framlagðar kosningaáherslur allra helstu framboða í Reykjavík í aðdraganda borgarstjórnarkosninga.