Flugfélagið PLAY, sem skráð er á First North-markaðinn, tapaði 14,3 milljónum Bandaríkjadaga, um tveimur milljörðum króna, á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs ef miðað er við gengi Bandaríkjadals í dag. Samtals nemur tap PLAY á fyrri hluta ársins 2022 25,6 milljónum Bandaríkjadala, um 3,6 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. ÞEgar við bætist 2,9 milljarða króna tap á síðasta ári, miðað við gengi Bandaríkjadals í lok þess árs, þá hefur félagið alls tapað 6,5 milljörðum króna frá byrjun árs 2021.
Í tilkynningu frá PLAY sem send var út í dag vegna uppgjörs annars ársfjórðungs kemur fram að rekstrarniðurstaðan hafi verið viðbúin þar sem félagið hafði enn ekki náð tilætlaðri stærðarhagkvæmni á öðrum ársfjórðungi, sem stendur frá byrjun apríl til loka júnímánaðar. „Á öðrum ársfjórðungi var helsta áherslan á að skala starfsemina upp í aðdraganda sumaráætlunarinnar og tengiflugsleiðakerfisins en það var ekki fyrr en í byrjun þriðja ársfjórðungs sem allt tengiflugsleiðakerfið var farið af stað með sex flugvélar í notkun. Í júlí var starfsemin komin í fullan rekstur eftir að félagið hafði rutt sér til rúms á fjölda nýrra markaða með afgerandi hætti.“
PLAY gerir ráð fyrir að farþegar félagsins verði um 800 þúsund á þessu ári og að veltan verði um 20 milljarðar króna, en 2022 er fyrsta heila starfsár félagsins. Spár PLAY sýni fram á jákvæða rekstrarafkomu á síðari hluta yfirstandandi árs.
PLAYflýgur nú til 25 áfangastaða.
Eigið fé PLAY var um 67 milljónir Bandaríkjadala um síðustu áramót. Það var um 42,5 milljónir Bandaríkjadala, um sex milljarðar króna á núverandi gengi, um mitt þetta ár og hafði því dregist saman um rúman þriðjung.
Fjárhagsstaða PLAY sé eftir sem áður sterk. Handbært fé þann 31. mars var 42,12 milljónir Bandaríkjadala. Eiginfjárhlutfall var 22% og félagið er með engar ytri vaxtaberandi skuldir.
Markaðsvirði fallið um rúma sex milljarða
PLAY, skráði sig á First North markaðinn í fyrra. Í hlutafjárútboði sem fór fram í aðdraganda skráningar voru seldir hlutir fyrir 4,3 milljarða króna.
Eftirspurn var áttföld en alls bárust tilboð upp á 33,8 milljarða króna. Útboðsgengið hjá PLAY nam 20 krónum á hlut fyrir tilboð yfir 20 milljónum króna og 18 krónum á hlut fyrir tilboð undir 20 milljónum króna.
Á fyrsta viðskiptadegi með bréf félagsins eftir skráningu hækkaði virði þeirra um 23 til 37 prósent og dagslokagengið þann dag, 9. júlí í fyrra, var 24,6 krónur á hlut. Í október náði hlutabréfaverðið því að verða 29,2 krónur á hlut. Síðan þá hefur það hríðfallið og fór um tíma niður í 15,6 krónur á hlut í júní síðastliðnum. Bréfin hafa þó tekið aðeins við sér síðari hluta sumars og gengið var 20,3 króna á hlut í lok dags í dag. Virðið hefur því dregist saman um 30 prósent frá því í haust.
Markaðsvirðið er um 14,3 milljarðar króna nú sem er 6,2 milljörðum króna minna en í október.