Prestafélag Íslands leggst harðlega gegn tillögu á komandi kirkjuþingi, sem felur í sér að stefnt verði að því að gjaldtaka vegna svokallaðra aukaverka presta verði afnumin. Þá er átt við þau gjöld sem prestar hafa tekið fyrir að veita þjónustu á borð við að skíra börn, jarða látna og fræða fermingarbörn.
Í umsögn Prestafélagsins um málið, sem Ninna Sif Svavarsdóttir formaður þess undirritar fyrir hönd stjórnar, segir að í nýlega undirrituðum kjarasamningi Prestafélagsins komi ótvírætt fram heimild presta til að innheimta greiðslur vegna aukaverka.
„Það eru vonbrigði að einungis þremur mánuðum seinna komi fram tillaga á kirkjuþingi þess efnis að ákvæði samningsins skuli felld úr gildi. PÍ lítur svo á að ef komi til þess sé allur kjarasamningurinn úr gildi fallinn,“ segir í umsögninni um málið, sem er ein af fimm slíkum, en þegar var Kjarninn búinn að segja frá ákafri gagnrýni þriggja presta á tillöguna.
Ósmekklegt að „væna presta um skort á kristilegum kærleika“
Í umsögn Prestafélagsins segir einnig að það sé „í hæsta máta ósmekklegt og ekki kirkjuþingi sæmandi að væna presta um skort á kristilegum kærleika þegar þeir nýta sér skýrt grundvallaðan rétt sinn til þess að innheimta fyrir aukaverk,“ og að prestar gangi ekki hart fram í innheimtu vegna aukaverka gagnvart efnalitlu fólki með umhyggju og kærleik að leiðarljósi.
Í greinargerð með tillögunni sem liggur fyrir kirkjuþingi segir um þetta atriði að vígð þjónusta kirkjunnar eigi ávallt að vera grundvölluð á kristilegum kærleika og sem mest án hindrana fyrir fólk. „Það er tímaskekkja og fráhrindandi ásýnd kirkjulegrar þjónustu að prestur sem þjónar fólki á gleði- og sorgarstundum sendi viðkomandi síðan reikning vegna þjónustu sinnar. Þetta dregur mjög úr trúverðugleika kirkjulegrar þjónustu. Einkum er þetta slæm birtingarmynd þegar um efnalítið fólk er að ræða,“ segir í greinargerð tillögunnar.
Telja vegið að atvinnufrelsi sínu
Í umsögn Prestafélagsins segir að ef kirkjuþing vilji leggja af innheimtu greiðslna fyrir aukaverk og taka sér það hlutverk að setja gjaldskrá vegna þóknunar presta fyrir tiltekin prestverk, sé það skerðing á samnings- og atvinnufrelsi presta sem starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Slíkar skerðingar verði að vera studdar með skýrum hætti í lögum.
Segja að kirkjan yrði að taka upp vaktakerfi og vinnutímastjórnun
Prestafélagið lítur svo á að aðeins prestar sjálfir geti ákveðið að leggja af greiðslur fyrir aukaverk sín. Ef kirkjuþing vilji leggja af slíka innheimtu sé ljóst að til þurfi að koma uppbót fyrir það tekjutap sem af því hlýst – til dæmis með auknum yfirvinnugreiðslum þar sem mikið af vinnuframlagi presta fari fram utan hefðbundins dagvinnutíma.
Aukinn kostnaður við þetta muni leiða til þess að kirkjan þurfi að fækka stöðugildum presta, sem myndi koma niður á þjónustu sem Þjóðkirkjan veitir.
„Nú er stefnt að 36 stunda vinnuviku presta. Þjóðkirkjan þyrfti að svara því hvernig skírnarathöfnum í heimahúsum yrði háttað því óvíst er að prestar önnuðust þær nema í vinnutíma það er í helgihaldi sunnudagsins. Nái þessi tillaga fram að ganga yrði því um verulega þjónustuskerðingu að ræða í íslensku þjóðkirkjunni,“ segir í umsögn Prestafélagsins og því bætt við að ekki sé hægt að „fella niður aukaverkagreiðslur til presta öðru vísi en að koma á víðtæku vaktakerfi og vinnutímastjórnun í Þjóðkirkjunni þar sem mönnun til athafna og prestsverka er tryggð og prestum bætt tekjutapið.“
Sóknarprestur í Fossvogi sammála tillögunni
Þrátt fyrir þessi hörðu mótmæli frá Prestafélaginu og það sem fram hafði komið í þremur fyrri umsögnum sem bárust um málið virðist ekki vera algjör einhugur um afstöðu til málsins í prestastétt. Þorvaldur Víðisson sóknarprestur í Fossvogsprestakalli lýsir sig jákvæðan í garð tillögunnar í sinni umsögn um hana.
„Í ljósi þeirra miklu skipulagsbreytinga sem kirkjan er að ganga í gegnum um þessar mundir, myndi það skjóta skökku við, ef ekki yrði leitað nýrra leiða til að tryggja sanngjarna umbun til presta fyrir þá mikilvægu þjónustu sem felst í athöfnum kirkjunnar og fræðslu, skírnum, fermingarfræðslu, hjónavígslum og útförum. Það er að mínu mati tímaskekkja að halda slíkri gjaldskrá til streitu og styð ég þá grunnhugsun sem að baki þessu máli kirkjuþings býr, að vinna skuli að nýjum tillögum í þessu sambandi,“ segir í umsögn Þorvalds.
Hann lætur þess þó getið að núgildandi kjarasamningur á milli Prestafélagsins og kirkjunnar byggist m.a. á því að í gildi sé gjaldskrá vegna prestsþjónustu.
„Með þessari tillögu um afnám gjaldskrárinnar hlýtur það því að verða verkefni samninganefndar kirkjuþings og samninganefndar Prestafélags Íslands að semja um heildarkjör, á þeim nýja grundvelli, þar sem umbun vegna prestsþjónustu verði í framtíðinni hluti af kjörum og kjarasamningi,“ skrifar Þorvaldur.