Fyrir Kirkjuþingi, sem hefst á laugardag, liggur tillaga um að afnema gjaldtöku fyrir aukaverk presta. Slík aukaverk eru meðal annars skírnir, útfarir, kistulagning, hjónavígslur, fermingafræðsla frá og með byrjun árs 2023. Tillagan er lögð fram af nefnd sem kosin var á Kirkjuþingi í fyrra til að endurskoða starfsreglur um starfskostnað vegna prestsþjónustu þjóðkirkjunnar og prófastsstarfa. Samkvæmt gildandi gjaldskrá fyrir prestþjónustu þjóðkirkjunnar ber að greiða prestum fyrir til að mynda útför 27.552 krónur og fermingarfræðsla kostar 21.194 krónur á hvert barn.
Í tillögunni er niðurlagning greiðslna meðal annars rökstudd með því að laun presta samkvæmt gildandi kjarasamningum verði „að teljast ágæt með hliðsjón af launum allra þeirra sem eru í BHM“. Ríkissjóður greiðir laun presta. Þeir heyrðu lengst af undir kjararáð, sem ákvarðaði laun þeirra, en samþykktu í sumar sem leið fyrsta kjarasamninginn sem gerður var við þjóðkirkjuna og Biskupsstofu. Samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar á tekjum landsmanna, sem birt var í ágúst, voru tíu prestar með tekjur á bilinu 1.427 til 2.163 þúsund krónur á mánuði í fyrra. Þær tekjur innihalda ekki fjármagnstekjur eða skattfrjálsar greiðslur en geta í einhverjum tilfellum innihaldið úttekt á séreignarsparnaði.
Í greinargerð með tillögunni segir enn fremur að vígð þjónusta kirkjunnar eigi ávallt að vera grundvölluð á kristilegum kærleika og sem mest án hindrana fyrir fólk. „Það er tímaskekkja og fráhrindandi ásýnd kirkjulegrar þjónustu að prestur sem þjónar fólki á gleði- og sorgarstundum sendi viðkomandi síðan reikning vegna þjónustu sinnar. Þetta dregur mjög úr trúverðugleika kirkjulegrar þjónustu. Einkum er þetta slæm birtingarmynd þegar um efnalítið fólk er að ræða.“
Helmingur umsagna um aukagreiðslurnar
Hægt var að senda inn umsagnir um þær tillögur sem leggja á fyrir Kirkjuþing, en frestur til að skila þeim inn rann út 15. október síðastliðinn. Alls bárust sex umsagnir um þau 35 mál sem liggja fyrir þinginu. Helmingur umsagna barst vegna tillögunnar um afnám greiðslna vegna prestsþjónustu.
Vill afslátt fyrir þá sem eru í þjóðkirkjunni
Þorgeir Arason, sóknarprestur Egilsstaðaprestakalls, skrifar einnig umsögn. Hann er heilt yfir ekki sáttur með tillöguna og segir í umsögn sinni að með henni sé „einfaldlega gert ráð fyrir að þessi hluti af launakjörum presta sé felldur niður og hvergi getið um að nokkur önnur kjarauppbót komi í staðinn. Ekki veit ég um neina starfsstétt með snefil af sjálfsvirðingu sem myndi fella sig við slíkt.“
Á meðal þess sem Þorgeir leggur til í umsögn sinni er að gjaldskránni fyrir aukaverk presta verði breytt með þeim hætti að fólk sem sé skráð í þjóðkirkjuna fái afslátt. Það væri „eðlilegt að umbuna þá fyrst og fremst þeim sem kjósa að vera í Þjóðkirkjunni með slíku gjaldskrárfrelsi. Í fjölmörgum félagasamtökum tíðkast að meðlimir njóti með einhverjum hætti sérstakra kjara á þeirri þjónustu sem félagið býður upp á. Sem dæmi má nefna að félagar í félagasamtökum sem ráða yfir salarkynnum leigja gjarnan húsnæði félagsins á öðru verði en utanaðkomandi aðilar. Ekkert er óeðlilegt við þá ráðstöfun, enda leggja þeir einstaklingar til félagsins með sinni aðild, rétt eins og félagar í Þjóðkirkjunni láta sitt sóknargjald renna til sinnar sóknar.“
Alls eru 229.623 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna, eða 61,3 prósent landsmanna. Næstum 150 þúsund manns standa utan þjóðkirkjunnar sem stendur, en sá hópur taldi tæplega 31 þúsund manns um síðustu aldamót.
„Blaut tuska í andlitið“
Síðasta umsögnin er svo frá Sigurði Grétari Sigurðssyni, presti í Útskálaprestakalli. Hann segir meðal annars að engin stétt geti fallist á kjaraskerðingu á borð við þá sem boðuð er í tillögunni og segir að prestum hafi verið lofað að kjör þeirra myndu ekki versna við það að Biskupsstofa færi að greiða þeim laun í stað Fjársýslu ríkisins.
Sigurður segir að kristilegur kærleikur verði ekkert minni í þjónustunni þó prestur fái laun fyrir. „Launin hafa verið byggð upp með ákveðnum hætti í mjög langan tíma, annars vegar föst laun frá launagreiðanda og hins vegar þóknun vegna prestsverka sem prestur innheimtir sjálfur. Það er blaut tuska í andlitið að slengja svona tillögu fram.“
Hann telur svo upp röksemdir fyrir því að greiðslurnar séu hóflegar og að fólk furði sig oft á því hvað þær séu lágar þegar kemur að greiðslu. „Greiðslan til prestsins fyrir fermingarfræðsluna er u.þ.b. 2500 krónum hærri en kransakaka fyrir 30 manns sem borðuð er á hálftíma.“
Sigurður hefur áhyggjur af því að verði tillagan samþykkt muni það leiða til verulegrar þjónustuskerðingar þar sem prestar muni ekki verða fúsir til að sinna umræddum verkum utan hefðbundins vinnutíma án greiðslu. „Allar tillögur sem miða að því að skerða launakjör presta eru óásættanlegar,“ skrifar Sigurður í lok umsagnar sinnar.