Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, sem hafnaði í fimmta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, fékk rúmar 4,7 milljónir króna í styrki til þess að taka þátt í baráttunni um sæti á lista flokksins. Hann sóttist eftir 2.-3. sæti í prófkjörinu.
Þetta kemur fram í uppgjöri sem stuðningsmannasamtök Arnars Þórs hafa skilað inn til Ríkisendurskoðunar. Arnar Þór er fyrsti frambjóðandinn í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi sem skilar inn uppgjöri vegna framboðsins, en sá frestur er raunar ekki liðinn.
Áður hafði Bergur Þorri Benjamínsson, sem sóttist eftir 4. sæti á lista flokksins í kjördæminu þó skilað inn yfirlýsingu um að hann hefði varið minna en 550 þúsund krónum í framboðsbaráttu sína.
Framboð Arnars Þórs varði rúmlega 3,1 milljón króna í auglýsingar í prófkjörsbaráttunni, samkvæmt því sem segir í uppgjörinu. Það er hærri upphæð en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra varði í auglýsingar oddvitaslag sínum gegn Guðlaugi Þór Þórðarsyni í Reykjavík. Heildarkostnaður vegna framboðs hennar nam þó 8,7 milljónum króna eins og Kjarninn sagði frá í gær.
Alls styrktu fimmtán fyrirtæki framboð Arnars Þórs með fjárframlögum. Þar af létu tvö fyrirtæki, Fasteignamarkaðurinn ehf. og Híbýli ehf., framboðinu hámarksupphæð í té, eða 400 þúsund krónur.
Héraðsdómarinn fékk síðan styrki frá 17 einstaklingum að andvirði rúmlega tveggja milljóna króna.
Uppgjör vegna persónukjörs stjórnmálaflokkanna fyrir þessar kosningar eru þessa dagana að detta inn á vef Ríkisendurskoðunar, en stjórnmálamönnum ber að skila inn uppgjöri eða yfirlýsingu um kostnað innan við þremur mánuðum eftir að prófkjöri lýkur.